Fótbolti

Dunga: Það þarf róttækar breytingar á brasilískum fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, segir að það sé þörf á að taka knattspyrnu í landinu algjörlega í gegn.

Brasilía féll úr leik í 8-liða úrslitum Suður-Ameríkukeppninnar eftir að hafa tapað fyrir Paragvæ í vítaspyrnukeppni. Brasilía þótti ekki spila vel í leiknum og margir vilja að Dunga verði rekinn.

Landslið Brasilíu var í vandræðum alla keppnina. Eftir að hafa unnið Perú með marki á lokamínútunni í fyrsta leik tapaði Brasilía fyrir Kólumbíu. Liðið komst svo áfram með 2-0 sigri á Venesúela í síðasta leik í riðlinum.

Brasilía tapaði 7-1 fyrir verðandi heimsmeisturum Þýskalands á HM á heimavelli í fyrra og gæti verið að brasilísk knattspyrna sé enn að jafna sig á því.

„Við þurfum að hugsa brasilíska knattspyrnu upp á nýtt. Ekki bara inni á vellinum,“ sagði Dunga við fjölmiðla eftir tapið í gær.

„Við þurfum að horfast í augu við að aðrar þjóðir hafa bætt sig. Við þurfum að sýna auðmýkt og leggja meiri vinnu á okkur. Við vitum að það er mikið verk óunnið.“

Dunga tók við sem landsliðsþjálfari af Luiz Felipe Scolari eftir HM í fyrra og vann tíu vináttulandsleiki í röð fyrir Suður-Ameríkukeppnina.

„Við vorum ekki sáttir þrátt fyrir alla þessa sigurleiki. Við vissum að við þyrftum að bæta okkur. Nú þurfum við að sjá hvort við séum í raun góðir eða hvort við eigum yfir höfuð möguleika á að bæta okkur - hvort við höfum styrkinn til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×