Fótbolti

Ein af stjörnum Juventus segir að Genoa verði erfiðari mótherji en Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martín Cáceres.
Martín Cáceres. Vísir/Getty
Ítölsku meistararnir í Juventus byrjuðu vel í Meistaradeildinni þegar liðið vann 2-1 sigur á toppliði ensku úrvalsdeildarinnar í Manchester City. Það gengur ekki eins vel í titilvörninni heima fyrir.

Mario Mandzukic og Álvaro Morata skoruðu mörkin á síðustu tuttugu mínútunum eftir að Manchester City hafði komist í 1-0.

Manchester City hefur fullt hús eftir fimm umferðir í ensku úrvalsdeildinni en eins og oft áður er liðið í vandræðum í Meistaradeildinni.

Juventus er aftur á móti með aðeins eitt stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar í ítölsku A-deildinni.

Martín Cáceres, úrúgvæski varnarmaðurinn í liði Juventus, býst við erfiðri leik á móti Genoa um helgina en á Etihad Stadium á þriðjudaginn.

„Við vitum að við erum með gott lið og við sýndum það líka í þessum leik á móti Manchester City. Það er hinsvegar erfiðara að spila í A-deildinni," sagði Martín Cáceres við Juventus-TV og útskýrði þessa fullyrðingu sína aðeins betur.

„Við fáum miklu meira pláss í Evrópuleikjunum og þeir leikir eru miklu opnari. Það verður ekki þannig á móti Genoa," sagði Cáceres.

Juventus tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni á móti Udinese (0-1) og Roma (1-2) og gerði síðan 1-1 jafntefli við Chievo um síðustu helgi. Leikurinn á móti Genoa fer fram á útivelli en Genoa-liðið hefur 3 stig eftir 3 leiki.

Leikur Genoa og Juventus fer fram á sunnudaginn klukkan 16.00 og leikurinn verður sýndir beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×