Íslenski boltinn

Mikill áhugi erlendis á Kristni Jónssyni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Jónsson hefur spilað frábærlega í sumar.
Kristinn Jónsson hefur spilað frábærlega í sumar. vísir/andri marinó
Kristinn Jónsson, bakvörður Breiðablik í Pepsi-deild karla í fótbolta, gæti verið á leið aftur í atvinnumennsku eftir tímabilið, en því lýkur á laugardaginn.

Samkvæmt heimildum Vísis er mikill áhugi á Kristni frá liðum á Norðurlöndum og sá áhugi teygir sig yfir til Hollands.

Áhuginn á bakverðinum magnaða ætti ekki að koma neinum á óvart, en hann er búinn að vera einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar.

Hann var næst efstur í einkunnagjöf Fréttablaðsins eftir fyrri umferðina, en þá var hann búinn að skora tvö mörk, gefa fimm stoðsendingar og í heildina koma að átta mörkum Blika.

Kristinn lagði síðast upp mark í síðasta leik Breiðabliks þegar liðið tryggði sér annað sætið í Pepsi-deildinni með sigri á ÍBV, en Kristinn er búinn að spila alla leiki Breiðabliks í deildinni.

Þessi 25 ára gamli bakvörður, sem varð bikarmeistari með Breiðabliki 2009 og Íslandsmeistari ári síðar, var í atvinnumennsku á síðasta ári, en þá féll hann úr sænsku úrvalsdeildinni með Brommapojkarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×