Fótbolti

Eru nýliðar á EM eins og Ísland en hafa ekki tapað leik í meira en eitt ár | Úrslit kvöldsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Lafferty fagnar marki sínu í kvöld.
Kyle Lafferty fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Norður-Írland er á leiðinni á sitt fyrsta Evrópumót frá upphafi í næsta mánuði en þeir eru nýliðar á EM í Frakklandi eins og við Íslendingar. Norður-írska liðið er greinilega í góðum gír þessa dagana.

Norður-Írar unnu 3-0 sigur á Hvít-Rússum í kvöld í vináttulandsleik á heimavelli sínum Windsor Park í Belfast.

Kyle Lafferty kom Norður-Írum í 1-0 eftir aðeins 6. mínútna leik en þetta var hans fimmtugasti landsleikur.

Conor Washington bætti við öðru marki á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir mikil varnarmistök markvarðar Hvít-Rússa, Andrey Gorbunov, en Washington þurfti bara að senda boltann í tómt markið.

Will Grigg skoraði síðan þriðja markið tveimur mínútum fyrir leikslok. Norður-Írar hafa nú spilað tíu leiki í röð án þess að tapa en síðasti tapleikur liðsins kom á móti Skotum 25. mars 2015.

England vann 2-1 sigur á Ástralíu í vináttulandsleik í Sunderland í kvöld en hinn átján ára gamli Marcus Rashford skoraði eftir aðeins 135 sekúndur í sínum fyrsta landsleik og hinn þrítugi Wayne Rooney skoraði síðan í fyrsta sinn á landsliðsferlinum eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Shane Long kom Írum yfir á móti Hollandi en Luuk de Jong jafnaði fyrir Hollendinga aðeins fimm mínútum fyrir leikslok.

Adam Nemec skoraði tvö mörk fyrir Slóvakíu í 3-1 sigri á Georgíu í kvöld en þriðja markið skoraði  Adam Zreľák.

Sex Tékkar komust á blað þegar Tékkland vann 6-0 sigur á Möltu í vináttulandsleik í kvöld eða þeir Jaroslav Plasil, Milan Skoda, Roman Hubník, David Lafata, Tomás Necid og Patrik Schick.

Andrej Kramarić skoraði sigurmark Króatíu í vináttulandsleik á móti Moldavíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×