Fótbolti

Ronaldo verður að Rögnvaldi Reginskitu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar og Röggi Reginskita.
Aron Einar og Röggi Reginskita. vísir/getty
Cristiano Ronaldo er ekki vinsælasti maðurinn á Íslandi eftir framkomu hans eftir leik Portúgal og Íslands í fyrsta leik liðanna á EM 2016 í fótbolta í Saint-Étienne á þriðjudagskvöldið.

Ronaldo var verulega pirraður að ná aðeins jafntefli gegn litla Íslandi og tók ekki hönd íslensku leikmannanna eftir leikinn. Þá lét hann miður falleg ummæli falla um strákana okkar í leikslok.

Enginn hefur tekið undir orð Ronaldo sem fékk það óþvegið út um allan heim fyrir að tala illa um íslenska liðið eftir frækna frammistöðu þess í leiknum. Meira um það hér.

Kristinn R. Ólafsson, fréttaritari RÚV í Madríd til margra ára og einn vinsælasti pistlahöfundur landsins, er verulega ósáttur við Portúgalann og endurskírði hann í höfuðið á Ronaldo hinum brasilíska. Nýtt nafn Ronaldo er þó ekki jafneftirsóknarvert.

„Eitt sinn gerði ég Ronaldo hinum brasilíska það til heiðurs að nefna hann Rögnvald reginskyttu. Nú geri ég Ronaldo hinum portúgalska það til skammar að nefna hann Rögnvald reginskitu,“ segir Kristinn R. Ólafsson í Madríd á Facebook-síðu sinni.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×