Íslenski boltinn

Sveinn Aron í Val: „Spenntur að feta í fótspor föður míns og afa“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sveinn Aron fetar í fótsport föður síns og afa.
Sveinn Aron fetar í fótsport föður síns og afa. mynd/valur
Sveinn Aron Guðjohnsen er genginn í raðir Vals frá HK en þessi 18 ára gamli leikmaður hefur spilað frábærlega fyrir Kópavogsfélagið í Inkasso-deildinni og skorað þar fimm mörk í tíu leikjum. Hann kemur án greiðslu til Valsmanna en Sveinn Aron var ekki með KSÍ-samning við HK.

Heimasíða Vals greinir frá vistaskiptunum en Sveinn Aron verður þriðji Guðjohnsen ættliðurinn sem spilar fyrir Hlíðarendafélagið. Áður hafa faðir hans og afi, Eiður Smári og Arnór Guðjohnsen, spilað fyrir Val með góðum árangri.

Faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen, spilaði með Val fyrir 22 árum síðan þegar hann var sextán ára gamall. Eiður Smári skoraði sjö mörk í 17 leikjum fyrir Val í efstu deild áður en hann var seldur út.

Arnór Guðjohnsen, afi Sveins Arons, spilaði fyrir Hlíðarendafélagið þegar hann kom heim úr atvinnumennsku árið 1998. Arnór spilaði 41 leik fyrir Val í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og skoraði 22 mörk.

Sveinn Aron er einn af þremur leikmönnum sem Valur fær við upphaf félagskiptagluggans sem verður opnaður á morgun en einnig eru tveir danskir leikmenn klárir í slaginn með Valsmönnum.

„Ég er mjög spenntur að vera mættur og spenntur fyrir þessu verkefni. Mér líst mjög vel á þetta. Hér eru allir mjög skemmtilegir og með bros á vör,“ segir Sveinn Aron í samtali við heimasíðu Vals en leikmaðurinn ungi skrifaði undir samning út tímabilið 2018.

Sveinn Aron viðurkennir að Valur hafi togað í hann vegna sögu föður síns og afa hjá félaginu.

„Ég var aðallega spenntur að feta í fótspor föður míns og afa,“ segir Sveinn Aron Guðjohnsen sem fær væntanlega leikheimild á morgun og getur spilað með Val á móti ÍA á sunnudaginn í elleftu umferð Pepsi-deildarinnar.

Allt viðtal Valsmanna við leikmanninn unga má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×