Fótbolti

Múrinn hans Trump engin fyrirstaða | Bandaríkin, Mexíkó og Kanada vilja halda HM saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forsetar knattspyrnusambandanna þriggja með framboðsgögnin. Victor Montagliani frá Kanada, Sunil Gulati, fraá Bandaríkjunum og Decio de Maria frá Mexíkó.
Forsetar knattspyrnusambandanna þriggja með framboðsgögnin. Victor Montagliani frá Kanada, Sunil Gulati, fraá Bandaríkjunum og Decio de Maria frá Mexíkó. Vísir/AP
Það var vitað að það væri umfangsmikið að halda HM í fótbolta árið 2026 enda á ferðinni fyrsta heimsmeistaramótið með 48 þjóðum. Nú virðist það þurfa næstum því heila heimsálfu til að halda þessa fyrstu risa heimsmeistarakeppni sögunnar.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó tilkynntu í nótt að knattspyrnusambönd þjóðanna vilji halda heimsmeistarakeppnina eftir níu ár en það verður fyrsta HM eftir að fjölgað verður úr 32 liðum upp í 48.

Það vekur athygli að múrinn hans Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hann hefur lofað að byggja á milli Bandaríkjanna og Mexíkó er ekki mikið að trufla menn í þessu sameiginlega framboði. Það eru níu ár í þessa keppni og múrinn ætti því að vera kominn upp fyrir þann tíma.

Heimsmeistarakeppnin hefur aldrei áður farið fram í þremur löndum. Það verður ákveðið árið 2020 hvar keppnin muni fara fram en með þessu framboði verður að teljast afar líklegt á HM 2016 fari fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Evrópsk og asísk knattspyrnusambönd mega ekki halda keppnina 2026 þar sem þau halda keppnirnar á undan.

Næsta heimsmeistarakeppnin fer fram í Rússlandi á næsta ári og HM 2022 verður síðan í Katar.

Knattspyrnusambönd Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó eru þegar búin að skipta með sér leikjum. 60 leikir alls og allir leikir frá og með átta liða úrslitunum fara fram í Bandaríkjunum en tíu leikir verða spilaðir bæði í Kanada og Mexíkó.

Bandaríkin hélt HM 1994 og HM kvenna 2015 fór fram í Kanada. Mexíkó á aftur möguleika á því að verða fyrsta þjóðin til að halda þrjár heimsmeistarakeppnir en áður hefur HM verið í Mexíkó 1970 og 1986.

Heimsmeistaramótið 2026 mun byrja með sextán þriggja liða riðlum þar sem tvær efstu þjóðirnar komast í 32 liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×