Íslenski boltinn

Gerði Malmö að meisturum í fyrra en kemur nú til greina sem næsti þjálfari Breiðabliks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allan Kuhn hefur mikla reynslu, bæði sem aðal- og aðstoðarþjálfari.
Allan Kuhn hefur mikla reynslu, bæði sem aðal- og aðstoðarþjálfari. vísir/getty
Leit Breiðabliks að nýjum þjálfara stendur nú yfir eftir að Arnari Grétarssyni var sagt upp störfum í gær, eftir aðeins tvær umferðir í Pepsi-deildinni.

Meðal þeirra sem hafa verið nefndir sem næsti þjálfari Breiðabliks er Daninn Allan Kuhn.

„Hann, eins og allir aðrir þjálfarar, koma til greina,“ sagði Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við Vísi í morgun, aðspurður hvort Kuhn væri inni í myndinni hjá Kópavogsliðinu.

Leiðir Kuhns og Breiðabliks hafa áður legið saman en haustið 2014 átti hann í viðræðum við félagið eins og fjallað var um á Vísi.

Samningaviðræðurnar við Kuhn gengu hins vegar ekki upp og skömmu síðar var Arnar ráðinn þjálfari Breiðabliks.

Kuhn, sem er 49 ára, gerði Malmö að sænskum meisturum á síðasta tímabili. Í því liði voru m.a. íslensku landsliðsmennirnir Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson.

Kuhn var aðstoðarþjálfari danska liðsins AaB á árunum 2004-09 og svo aftur frá 2011 til 2016. Hann tók tímabundið við AaB 2008 og stýrði því m.a. í leik í Meistaradeild Evrópu gegn Manchester United á Old Trafford. Kuhn stýrði einnig Midtjylland á árunum 2009-11.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Stjörnunni á sunnudaginn. Að sögn Eysteins eru Blikar bjartsýnir á að nýr þjálfari verði tekinn við liðinu fyrir þann leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×