Fótbolti

96 þúsund manns sáu sjaldgæfar 90 markalausar mínútur hjá Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það þurfti að venju nokkra leikmenn til að vakta Lionel Messi.
Það þurfti að venju nokkra leikmenn til að vakta Lionel Messi. Vísir/Getty
Argentínumenn unnu 1-0 sigur á erkifjendum sínum frá Brasilíu í vináttulandsleik þjóðanna á krikket-leikvanginum í Melbourne í dag.

Jorge Sampaoli stýrði þarna landsliði Argentínu í fyrsta sinn og ekki slæmt að byrja á því að vinna Brasilíu.

Tæplega 96 þúsund manns (95569) sáu Lionel Messi spila 90 mínútur en Argentínumaðurinn náði þó ekki að skora mark í leiknum.

Eina markið skoraði bakvörðurinn Gabriel Mercado rétt fyrir hálfleik þegar hann fylgdi á eftir skalla Nicolas Otamendi í stöng. Angel Di Maria átti fyrirgjöfina eftir stutt horn. Gabriel Mercado spilar með Sevilla á Spáni en Otamendi er leikmaður Manchester City.

Gabriel Jesus, sóknarmaður Manchester City og brasilíska landsliðsins, fékk vel að finna fyrir því í leiknum og endaði á því að vera borinn af velli á börnum.

Gabriel Jesus fékk þó nokkur færi til að skora þar á meðal átti hann stangarskot eftir rúmlega klukkutíma leik. Sergio Romero, markvörður Manchester United og argentínska landsliðsins stoppaði hinsvegar allt sem á markið kom.

Lionel Messi var einn af fimm leikmönnum Argentínu sem spiluðu allar 90 mínúturnar en félagar hans í framlínunni, Juventus-mennirnir Gonzalo Higuaín og Paulo Dybala, voru hinsvegarr báðir teknir af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×