Fótbolti

Aston Villa hjálpaði Heimi með Birki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson sagði frá því á blaðamannafundi í dag að landsliðsþjálfarinn hafi fengið góða hjálp frá enska félaginu Aston Villa við að það að gera Birki Bjarnason leikfæran fyrir leik Íslands og Króatíu í undankeppni HM.

Aston Villa gaf nefnilega Birki Bjarnasyni frí í síðustu leikjum liðsins í ensku b-deildinni til að gefa honum meiri tíma til að komast í form fyrir leikinn gegn Króatíu. Það var vel þegið hjá Heimi. Birkir meiddist fyrr á árinu og hefur ekki spilað lengi.

Heimir var spurður út í meiðsli landsliðsmanna og hvaða áhrif þetta hefur á hans ákvörðunartöku við það að velja byrjunarliðið fyrir Króatíuleikinn.

„Við munum stilla upp því liði sem við teljum best á leikdegi. Við munum nota vikuna vel til að skoða það og hvað sé best fyrir Ísland á sunnudaginn. Þess vegna hefur þessi hálfi mánuður verið mjög góður fyrir okkur,“ sagði Heimir.

Heimir hefur verið með æfingar fyrir leikinn gegn Króatíu í dágóðan tíma, fyrir þá leikmenn sem kláruðu snemma.

„Þetta hefur verið ákaflega góður tími fyrir okkur. Sumir hafa verið búnir snemma, aðrir eru að klára á sunnudaginn. Það er okkar að stilla menn saman. Leikmenn hafa líka fengið frí á milli, þetta hefur verið góður tími,“ sagði Heimir.

Ísland mætir Króatíu á Laugardalsvellinum sunnudaginn 11. Júní en þetta eru tvö efstu lið riðilsins og nánast úrslitaleikur um efsta sætið sem skilar sæti á HM í Rússlandi 2018.




Tengdar fréttir

Heimir sendi knattspyrnustjórum strákanna tóninn

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, ætlar ekki að gefa neitt eftir í viðskiptum sínum við knattspyrnustjórna félaganna sem íslensku landsliðsmennirnir spila með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×