Fótbolti

Neymar fær leyfi hjá Barcelona til að fara til PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Neymar í síðasta leik sínum með Barcelona.
Brasilíumaðurinn Neymar í síðasta leik sínum með Barcelona. Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Neymar hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Barcelona en spænska félagið hefur tapað stríðinu við Paris Saint-Germain.

Börsungar hafa gefið Neymar leyfi til að fara til franska liðsins sem hefur verið á eftir honum í allt sumar. Enskir og spænskir miðlar segja frá þessu þar á meðal BBC.

Parísar-liðið kaupir upp samning Neymar en þarf að borga 222 milljónir evra fyrir hann eða 198 milljónir punda sem samsvara 27,4 milljörðum íslenskra króna.

Neymar verður þar með langdýrasti knattspyrnumaður sögunnar.

Hinn 25 ára gamli Neymar sagði liðsfélögum sínum hjá Barcelona á æfingu liðsins í morgun að hann vildi fara til Paris Saint Germain.

Í framhaldinu gaf þjálfarinn Ernesto Valverde honum leyfi til að sleppa æfingu og ganga frá sínum málum.

Neymar var í miklu stuði á undirbúningstímabilinu með Barcelona. Hann skoraði öll mörkin í sigrum á Juventus (2-1) og Manchester United (1-0) og lagði síðan upp tvö mörk í 3-2 sigri á Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×