Í bókinni eru prjónaðir jólasokkar, jólavettlingar, jólahúfur og jólaskraut. Þetta er sjötta prjónabók Guðrúnar sem starfaði lengi sem kennari, fyrst í handmennt en síðar í bóklegum fögum með yngstu kynslóðinni, meðal annars í Ísaksskóla. Áður hafa komið út bækurnar Sokkaprjón, Húfuprjón, Vettlingaprjón, Treflaprjón og Teppaprjón. Allar bækurnar hafa notið mikilla vinsælda enda hefur alls kyns prjón aukist mikið hér á landi.
Guðrún segir að það hafi verið barnabörnin sem hafi kveikt áhuga hennar að gera Jólaprjón. „Ég prjónaði jólasokka handa barnabörnunum til að hengja upp sem vöktu mikla lukku. Ég á ellefu barnabörn og sokkarnir voru allir mismunandi. Þegar ég var búin að gera þessa ellefu sokka átti ég margar hugmyndir eftir svo ég hélt bara áfram. Það endaði með því að úr varð bók,“ segir hún.
Guðrún segir að bókin sé að koma í verslanir. Það ætti því að vera nægur tími til að prjóna jólagjafir eftir uppskriftum hennar. „Þetta eru aðgengilegar en miserfiðar uppskriftir,“ segir hún. „Það eru 42 uppskriftir af sokkum í bókinni, einnig eru jólavettlingar, jólahúfur og tólf útfærslur af jólaskrauti, meðal annars jólasveinar, snjókarlar, mörgæsir, englar, bangsi, hreindýr og fleira,“ segir Guðrún en íslenskt jólaprjón hefur aldrei áður komið út í bók. „Allar grunnuppskriftir af jólaskrauti í bókinni eru byggðar upp á þríhyrningsformi.“
