Skoðun

Sturla og Gissur

Óttar Guðmundsson skrifar
Við Guðni Ágústsson stóðum fyrir fjölmennri skemmti- og sögugöngu um Þingvelli á dögunum. Umræðuefni kvöldsins voru foringjar Sturlungaaldar og átök þeirra. Guðni ræddi hlýlega og af mikilli aðdáun um frænda sinn Gissur jarl Þorvaldsson bæði á Hakinu og í Almannagjá. Jörmundur Ingi fyrrverandi allsherjargoði blessaði þingheim. Við kirkjuna sleit ég þessum viðburði með pólitískri ræðu um ágæti Sturlunga og bar blak af frænda mínum, ættarlauknum Sturlu Sighvatssyni. Karlakór Kjalnesinga söng. Guðni lét hrópa húrra fyrir jarlinum í gjánni og tóku aðdáendur Gissurar hraustlega undir. Við fylgismenn Sturlunga þögðum þunnu hljóði með ólundarsvip. Það var athyglisvert að flokkadrættir Sturlungaaldar voru enn að valda mönnum geðshræringu. Sturla og Gissur áttu sér dygga fylgismenn í hópnum þótt tæp 800 ár séu liðin frá blóðugum átökum þeirra.

En hver hefðu orðið örlög þessara glæstu höfðingja á okkar tímum? Sveimhuginn Sturla Sighvatsson hefði áttað sig fljótlega á því að hann átti ekkert erindi í pólitík sakir ákvarðanafælni. Hann hefði fetað í fótspor Snorra frænda síns og orðið rithöfundur og síðan forstjóri hugbúnaðarfyrirtækis. Glæsileiki og mikil kvenhylli hefðu fleytt honum langt í heimi viðskipta og lista. Gissur hefði orðið óumdeildur leiðtogi þjóðarinnar enda vel til þess fallinn að vera nútímapólitíkus. Hann var miskunnarlaus og ófyrirleitinn, sór eiða sem hann rauf jafnharðan og hikaði ekki við að beita sögulegum fölsunum í tækifærisræðum. Gissur kom Íslandi undir Noregskonung enda var hann fyrsti raunverulegi Evrópusinninn. Jarlinn hefði leitt Ísland farsællega inn í Evrópusambandið og náð langt sem einn af leiðtogum sameinaðrar Evrópu. Hann hefði látið sig engu skipta hvort frændum hans í Framsóknarflokknum líkaði það betur eða verr.




Skoðun

Sjá meira


×