Skoðun

Umhverfisþing fer fram í dag

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Metfjöldi hefur skráð sig á Umhverfisþing sem fram fer í dag og fjallar um nýja nálgun í náttúruvernd. Ég boðaði til þingsins til að ræða þau fjölmörgu tækifæri sem falist geta í friðlýsingum. Umræða um þjóðgarð á miðhálendinu verður fyrirferðarmikil, enda er tillaga um miðhálendisþjóðgarð nú í fyrsta sinn skrifuð í stjórnarsáttmála sem eitt af stefnumálum ríkisstjórnar á Íslandi og þverpólitísk nefnd vinnur að framgangi málsins. Það er einstakt að finna þennan mikla áhuga á Umhverfisþingi og efni þess – og á umhverfismálum almennt. Meðvitund um mikilvægi umhverfismála hefur stóraukist á stuttum tíma og það er fagnaðarefni.

Loftslagsmál, plast og náttúruvernd

Við megum aldrei gleyma því að við fengum Jörðina að láni og verðum að gæta hennar vel. Loftslagsmálin eru stærsta sameiginlega áskorun mannkyns en við búum einnig í heimi sem við höfum fyllt af plasti með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Þessu verðum við að sporna gegn. Aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum, sem kynnt var hér á landi í haust, markar mikilvæg skref í þessum efnum. Ég hlakka líka til að vinna með tillögur frá starfshópi um plastmengun sem ég skipaði í sumar og hefur nú afhent mér lista af aðgerðum um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu og minnka plastmengun í hafi.

Auk þess að vinna markvisst að aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og plastmengunar verðum við að gæta náttúrunnar og vernda hana. Ísland státar af einstökum náttúruminjum sem eiga fáa sína líka á heimsvísu. Ábyrgð okkar á að varðveita þær er mikil. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sérstakt átak í friðlýsingum og það er eitt af áherslumálum mínum sem ráðherra. Tengt átakinu verða á Umhverfisþinginu í dag m.a. kynntar niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar sem Hagfræðistofnun HÍ var falið að vinna um efnahagsleg áhrif friðlýsinga á Íslandi, auk þess sem skýrt verður frá niðurstöðum um viðhorf almennings til miðhálendisþjóðgarðs. Fram undan er spennandi Umhverfisþing – spennandi tímar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×