Hlaupið í erindisleysi Þórlindur Kjartansson skrifar 23. ágúst 2019 07:00 Ekki eru mörg ár síðan það þótti til marks um sérvisku að ástunda að ástæðulausu hlaup á götum úti hér á landi. Þetta var á þeim tímum þegar það þótti einungis á færi hraustustu íþróttamanna að hlaupa tíu kílómetra, hvað þá að fara heilt 42 kílómetra maraþon eins og hinn gríski Feidipídes sem hljóp frá Maraþon til Aþenu með tíðindi af sigri Grikkja á Persum. Nú á dögum þykir það hins vegar ofureðlilegt að fólk hlaupi þessar vegalengdir sér til ánægju, yndisauka og heilsubótar. Hlaup Feidipídesar, sem talið er að hafi verið í ágúst- eða septembermánuði 490 árum fyrir Krist, var semsagt ekki að ástæðulausu. Og enn síður var það blessuðum manninum til heilsubótar. Þvert á móti. Eftir sprettinn sögufræga tókst honum að stynja upp úr sér sigurfregninni en datt svo niður dauður. Kannski yrði það Feidipídesi einhver huggun að vita að þetta mikla afrek hefur tryggt honum ódauðleika því allt frá því Ólympíuleikar voru endurreistir árið 1896 hefur maraþonhlaup verið hluti keppninnar, og margt viljasterkt fólk hefur sett sér það sem markmið að ná þeim áfanga í lífinu að herma eftir afreki Feidipídesar; hver á sínum hraða og með sínu lagi.Ofurmaraþon Á allra síðustu árum hefur þróunin einhvern veginn verið á þá leið að þetta afrek Feidipídesar virkar sífellt tilkomuminna. Miðaldra fólk, og jafnvel háaldrað, er farið að hlaupa maraþonhlaup og hreystimenni á öllum aldri og af öllum kynjum hafa tekið upp á því að keppa sín á milli í alls konar ofurþrautum sem láta afrek Feidipídesar líta út eins og notalega upphitun í samanburði. Það eru engar ýkjur. Undanfarin ár hafa hundruð manna sett sér það metnaðarfulla markmið að hlaupa Laugaveginn frá Landmannalaugum og inn í Þórsmörk. Vegalengdin er 55 kílómetrar af fjalllendi—semsagt 13 kílómetrum meira en skokkið sem tryggði Feidipídesi ódauðleika fyrir tvö þúsund árum. Það er ekkert grín að hlaupa þennan Laugaveg. Fólk æfir sig mánuðum og árum saman til þess að komast leiðina á skikkanlegum tíma og er svo úrvinda á sál og líkama eftir átökin að það er ekki mönnum sinnandi fyrr en líður að aðventu. Nema auðvitað gaurinn og gellan sem hituðu upp fyrir Laugavegshlaupið í sumar með því að hlaupa Laugaveginn „í hina áttina“—frá Þórsmörk upp í Landmannalaugar. Þegar hinir keppendurnir mættu í rútunni—tilbúnir til þess að vinna mesta þrekvirki ævinnar—þá voru sigurvegararnir tilvonandi einfaldlega að reyna að halda sér vakandi áður en þau lögðu af stað aftur niðureftir. 55 kílómetra hlaup næturinnar var í raun upphitun fyrir 55 kílómetra hlaup dagsins. Þorbergur Ingi Jónsson og Elísabet Margeirsdóttir, sem hituðu upp með þessum eftirminnilega hætti, virtust samt eiga nóg eftir. Hann var langfyrstur í flokki karla og hún varð önnur í flokki kvenna. Þorbergur viðurkenndi reyndar eftir hlaupið að hann væri þreyttur og sér væri „aðeins illt í fótunum“. En hann lét þess líka getið, hinum keppendunum til hugreystingar, að hann hefði litið á allt hlaupið, fram og til baka, sem eins konar æfingu fyrir „alvöru“ hlaup sem þau tvö eru að undirbúa sig fyrir; 170 kílómetra með tíu þúsund metra hækkun. Á eigin forsendum Það er hætt við að margir úrvinda hlauparar á Laugaveginum hafi við lok hlaupsins fundið til undarlegrar blöndu af sigurgleði yfir eigin afreki og vanmáttar gagnvart ofurmennunum sem stungu þá af. Það er gríðarleg þrekraun hjá hverjum sem er að hlaupa 42 kílómetra; hvað þá 55 kílómetra—en úrslitin í Laugavegshlaupinu í sumar undirstrika að það er nánast sama hversu góður maður er; alltaf er einhver sem getur látið mann líta út eins og byrjanda. Hlaupagarparnir sem ætla að leggja af stað í skemmtiskokk, 10 km, hálfmaraþon og maraþon á morgun taka allir þátt á sínum eigin forsendum. Þeir sem hafa reynslu af þátttöku í svona hlaupum gera sér grein fyrir því að mestu sigurvegararnir eru ekki endilega þeir sem fara hraðast eða eiga auðveldast með hlaupið—heldur þeir sem raunverulega eru að sigrast á áskorunum sem virðast óárennilegar í þeirra eigin huga. Mesti sigurinn er svo líklegast fólginn í því að geta litið á hreyfinguna sem ánægjulegan hluta af daglegu lífi, en ekki einhvers konar samfélagslega áþján. Það er örugglega mun betra að vera í formi af því maður hreyfir sig heldur en að þurfa að hreyfa sig til þess að komast í form. Tilgangurinn er hlaupið sjálft Feidipídes hefði örugglega ekki skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið væri hann uppi í dag. Honum hefði eflaust þótt algjörlega fáránlegt að vita til þess að fólk gerði það að leik sínum að hlaupa vegalengdina frá Maraþon til Aþenu, hvað þá að fara margfalda þá leið án sýnilegs erindis. Þótt hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu hlaupi ekki í því erindi að bera sigurtíðindi úr stórorrustum þá er hlaupið sjálft sigurhátíð. Örfáir keppa sín á milli um besta tímann en þúsundir hlaupa sér til ánægju, keppa við sjálfa sig og njóta þess að taka þátt í stærstu útihátíð sumarsins. Tilgangur hlaupsins er hlaupið sjálft. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Reykjavíkurmaraþon Þórlindur Kjartansson Mest lesið Vindmyllufyrirtæki í áskrift hjá íslenskum almenningi Linda Jónsdóttir Skoðun Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun Hvers virði er vara ef hún er ekki seld? Jón Jósafat Björnsson Skoðun Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun Aulatal um að Evrópa sé veik og getulaus Ole Anton Bieltvedt Skoðun Metnaðarfull markmið og stórir sigrar Halla Helgadóttir Skoðun Ár vondra vinnubragða í Stúdentaráði HÍ Katla Ólafsdóttir,Mathias Bragi Ölvisson Skoðun „Evrópa er í hnignun“ – Er það samt? Lítum aðeins á söguna Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Vilja Ísland í sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Skoðun Skoðun Skipta ekki öll börn jafn miklu máli? Greiðslur Reykjavíkurborgar fyrir nám barna utan sveitarfélags Hrönn Stefánsdóttir skrifar Skoðun Er sjálfbærni bara fyrir raungreinafólk? Saga Helgason skrifar Skoðun Börn í skjóli Kvennaathvarfsins Auður Magnúsdóttir skrifar Skoðun Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Nýr vettvangur samskipta? Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson skrifar Skoðun Vilja Ísland í sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Blikkandi viðvörunarljós Ingveldur Anna Sigurðardóttir skrifar Skoðun „Evrópa er í hnignun“ – Er það samt? Lítum aðeins á söguna Guðni Freyr Öfjörð skrifar Skoðun Vindmyllufyrirtæki í áskrift hjá íslenskum almenningi Linda Jónsdóttir skrifar Skoðun Metnaðarfull markmið og stórir sigrar Halla Helgadóttir skrifar Skoðun Hvers virði er vara ef hún er ekki seld? Jón Jósafat Björnsson skrifar Skoðun Aulatal um að Evrópa sé veik og getulaus Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Ár vondra vinnubragða í Stúdentaráði HÍ Katla Ólafsdóttir,Mathias Bragi Ölvisson skrifar Skoðun Mannúð og hugrekki - gegn stríðsglæpum og þjóðarmorði Ólafur Ingólfsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar – byggjum á trausti, ekki tortryggni Helga Kristín Kolbeins skrifar Skoðun Fé án hirðis Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar Skoðun Gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Myllan sem mala átti gull Andrés Kristjánsson skrifar Skoðun Sjö mýtur um loftslagsbreytingar Kristinn Már Hilmarsson,Elva Rakel Jónsdóttir skrifar Skoðun Pírati pissar í skóinn sinn Helgi Áss Grétarsson skrifar Skoðun Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Fáum presta aftur inn í skólana Rósa Guðbjartsdóttir skrifar Skoðun Rösk og reiðubúin fyrir landsbyggðina Hópur Röskvuliða skrifar Skoðun Icelandic Learning is a Gendered Health Issue Logan Lee Sigurðsson skrifar Skoðun Goðsögnin um UFS-sjóði sem róttækar „woke"- fjárfestingar Már Wolfgang Mixa skrifar Skoðun Framtíð Öskjuhlíðar Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Vanhæfur Sjálfstæðisflokkur Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar Skoðun Mælt fyrir miklum kjarabótum öryrkja og aldraðra Inga Sæland skrifar Skoðun Mannréttindabrot og stríðsglæpir Rússa í Úkraínu Erlingur Erlingsson skrifar Sjá meira
Ekki eru mörg ár síðan það þótti til marks um sérvisku að ástunda að ástæðulausu hlaup á götum úti hér á landi. Þetta var á þeim tímum þegar það þótti einungis á færi hraustustu íþróttamanna að hlaupa tíu kílómetra, hvað þá að fara heilt 42 kílómetra maraþon eins og hinn gríski Feidipídes sem hljóp frá Maraþon til Aþenu með tíðindi af sigri Grikkja á Persum. Nú á dögum þykir það hins vegar ofureðlilegt að fólk hlaupi þessar vegalengdir sér til ánægju, yndisauka og heilsubótar. Hlaup Feidipídesar, sem talið er að hafi verið í ágúst- eða septembermánuði 490 árum fyrir Krist, var semsagt ekki að ástæðulausu. Og enn síður var það blessuðum manninum til heilsubótar. Þvert á móti. Eftir sprettinn sögufræga tókst honum að stynja upp úr sér sigurfregninni en datt svo niður dauður. Kannski yrði það Feidipídesi einhver huggun að vita að þetta mikla afrek hefur tryggt honum ódauðleika því allt frá því Ólympíuleikar voru endurreistir árið 1896 hefur maraþonhlaup verið hluti keppninnar, og margt viljasterkt fólk hefur sett sér það sem markmið að ná þeim áfanga í lífinu að herma eftir afreki Feidipídesar; hver á sínum hraða og með sínu lagi.Ofurmaraþon Á allra síðustu árum hefur þróunin einhvern veginn verið á þá leið að þetta afrek Feidipídesar virkar sífellt tilkomuminna. Miðaldra fólk, og jafnvel háaldrað, er farið að hlaupa maraþonhlaup og hreystimenni á öllum aldri og af öllum kynjum hafa tekið upp á því að keppa sín á milli í alls konar ofurþrautum sem láta afrek Feidipídesar líta út eins og notalega upphitun í samanburði. Það eru engar ýkjur. Undanfarin ár hafa hundruð manna sett sér það metnaðarfulla markmið að hlaupa Laugaveginn frá Landmannalaugum og inn í Þórsmörk. Vegalengdin er 55 kílómetrar af fjalllendi—semsagt 13 kílómetrum meira en skokkið sem tryggði Feidipídesi ódauðleika fyrir tvö þúsund árum. Það er ekkert grín að hlaupa þennan Laugaveg. Fólk æfir sig mánuðum og árum saman til þess að komast leiðina á skikkanlegum tíma og er svo úrvinda á sál og líkama eftir átökin að það er ekki mönnum sinnandi fyrr en líður að aðventu. Nema auðvitað gaurinn og gellan sem hituðu upp fyrir Laugavegshlaupið í sumar með því að hlaupa Laugaveginn „í hina áttina“—frá Þórsmörk upp í Landmannalaugar. Þegar hinir keppendurnir mættu í rútunni—tilbúnir til þess að vinna mesta þrekvirki ævinnar—þá voru sigurvegararnir tilvonandi einfaldlega að reyna að halda sér vakandi áður en þau lögðu af stað aftur niðureftir. 55 kílómetra hlaup næturinnar var í raun upphitun fyrir 55 kílómetra hlaup dagsins. Þorbergur Ingi Jónsson og Elísabet Margeirsdóttir, sem hituðu upp með þessum eftirminnilega hætti, virtust samt eiga nóg eftir. Hann var langfyrstur í flokki karla og hún varð önnur í flokki kvenna. Þorbergur viðurkenndi reyndar eftir hlaupið að hann væri þreyttur og sér væri „aðeins illt í fótunum“. En hann lét þess líka getið, hinum keppendunum til hugreystingar, að hann hefði litið á allt hlaupið, fram og til baka, sem eins konar æfingu fyrir „alvöru“ hlaup sem þau tvö eru að undirbúa sig fyrir; 170 kílómetra með tíu þúsund metra hækkun. Á eigin forsendum Það er hætt við að margir úrvinda hlauparar á Laugaveginum hafi við lok hlaupsins fundið til undarlegrar blöndu af sigurgleði yfir eigin afreki og vanmáttar gagnvart ofurmennunum sem stungu þá af. Það er gríðarleg þrekraun hjá hverjum sem er að hlaupa 42 kílómetra; hvað þá 55 kílómetra—en úrslitin í Laugavegshlaupinu í sumar undirstrika að það er nánast sama hversu góður maður er; alltaf er einhver sem getur látið mann líta út eins og byrjanda. Hlaupagarparnir sem ætla að leggja af stað í skemmtiskokk, 10 km, hálfmaraþon og maraþon á morgun taka allir þátt á sínum eigin forsendum. Þeir sem hafa reynslu af þátttöku í svona hlaupum gera sér grein fyrir því að mestu sigurvegararnir eru ekki endilega þeir sem fara hraðast eða eiga auðveldast með hlaupið—heldur þeir sem raunverulega eru að sigrast á áskorunum sem virðast óárennilegar í þeirra eigin huga. Mesti sigurinn er svo líklegast fólginn í því að geta litið á hreyfinguna sem ánægjulegan hluta af daglegu lífi, en ekki einhvers konar samfélagslega áþján. Það er örugglega mun betra að vera í formi af því maður hreyfir sig heldur en að þurfa að hreyfa sig til þess að komast í form. Tilgangurinn er hlaupið sjálft Feidipídes hefði örugglega ekki skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið væri hann uppi í dag. Honum hefði eflaust þótt algjörlega fáránlegt að vita til þess að fólk gerði það að leik sínum að hlaupa vegalengdina frá Maraþon til Aþenu, hvað þá að fara margfalda þá leið án sýnilegs erindis. Þótt hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu hlaupi ekki í því erindi að bera sigurtíðindi úr stórorrustum þá er hlaupið sjálft sigurhátíð. Örfáir keppa sín á milli um besta tímann en þúsundir hlaupa sér til ánægju, keppa við sjálfa sig og njóta þess að taka þátt í stærstu útihátíð sumarsins. Tilgangur hlaupsins er hlaupið sjálft.
Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun
Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun
Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun
Skoðun Skipta ekki öll börn jafn miklu máli? Greiðslur Reykjavíkurborgar fyrir nám barna utan sveitarfélags Hrönn Stefánsdóttir skrifar
Skoðun Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir skrifar
Skoðun Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson skrifar
Skoðun Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir skrifar
Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun
Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun
Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun