„Við erum með Typhoon-þotur eins og þú sérð hér fyrir aftan mig, fjórðu kynslóðar orustuþotur sem eru aðal þotur breska konunglega flughersins,“ segir flugsveitarforinginn Mark Baker. Sjálfur kveðst hann spenntur fyrir næstu vikum á Íslandi, hann sé þakklátur fyrir boð íslenskra stjórnvalda og Landhelgisgæslunnar fyrir að koma og sinna loftrýmisgæslu hér á landi.
Til þessa höfðu níu aðildarríki bandalagsins tekið þátt í loftrýmisgæslunni hér við land síðan hún hófst árið 2008 en þetta er í fyrsta sinn sem Bretar taka þátt. Loftrýmisgæslan fer fram að jafnaði þrisvar á ári í tvær til þrjár vikur í senn en síðast voru Ítalir og Bandaríkjamenn hér við loftrýmisgæslu fyrr á þessu ári.
„Breski flugherinn var síðast með bækistöðvar hér var í seinni heimsstyrjöldinni. Þannig að þó að við höfum tekið þátt í æfingum áður, en þetta er í fyrsta sinn sem við erum með viðveru í nokkrar vikur með þátttöku í loftrýmisgæslunni,“ segir Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi. Hann segir afstöðu Vinstri grænna til Atlantshafsbandalagsins,sem fara með forsæti í ríkisstjórn Íslands, ekki hafa neikvæð áhrif á samstarf ríkjanna í öryggismálum.

Í hópnum sem verður hér fram í byrjun desember eru um 120 liðsmenn breska flughersins. Einn þeirra er hinn tvítugi Harrison Gibson sem er flugvirki í hernum en hann var aðeins sautján ára gamall þegar hann gekk í herinn.
„Ég er búinn að fara til Frakklands og Kýpur og svo hingað,“ segir Gibson. Spurður hvers vegna hann ákvað að ganga í flugherinn segir hann það hafa verið auðvelda ákvörðun. „Ég var ekki í skapi til að fara í háskóla svo þetta var besti kosturinn,“ segir Gibson sem segist fyrir utan vinnuna hlakka til að kynnast landi og þjóð og fara í Bláa lónið.
