Gylfi Þór Sigurðsson virðist ekki eiga heima í uppáhalds leikkerfi Carlo Ancelotti og er „fíllinn í herberginu“ hjá Everton, líkt og í stjórnartíð Marco Silva, að mati blaðamanna The Athletic.
Þeir Patrick Boyland og Tom Worville birtu ítarlega grein um Gylfa og stöðu hans hjá Everton í gær. Segja þeir að Gylfi setji Ancelotti í erfiða stöðu rétt eins og hann hafi gert sem dýrasti leikmaður félagsins þegar Marco Silva tók við Everton sumarið 2018. Silva hafi viljað nota 4-3-3 leikkerfi sem hann hafi þekkt best en aðlagað það að Gylfa í 4-2-3-1 kerfi þar sem Gylfi gat leikið fyrir aftan framherjann. Það hafi borið mikinn árangur og Gylfi skorað 13 mörk og lagt upp sex tímabilið 2018-2019, og Everton vegnað vel, en svo hafi sigið á ógæfuhliðina.
Henti ekki á miðjunni hjá Ancelotti
Silva var rekinn í byrjun desember og Ancelotti ráðinn í hans stað. Undir stjórn Ítalans hefur Gylfi átt fast sæti í byrjunarliði Everton og hann bar fyrirliðabandið í síðasta leik fyrir hléið vegna kórónuveirufaraldursins, í 4-0 tapi gegn Chelsea. En Ancelotti vill nota 4-4-2 leikkerfi þar sem miðjumennirnir tveir halda sig aftarlega og eiga að koma boltanum hratt fram völlinn. Að mati blaðamanna The Athletic virðist Gylfi ekki passa vel í það hlutverk. Fara þeir yfir ýmsa tölfræðiþætti til að færa rök fyrir því og segja ljóst að Gylfi eigi heima framar á vellinum, jafnvel þó að hann hafi leyst stöðu „áttu“ á miðjunni hjá íslenska landsliðinu. Þar hafi hann reyndar ekki þurft að spila eins aftarlega og undir stjórn Ancelotti.
Gylfi Sigurdsson has become Everton s elephant in room from a tactical perspective
— Patrick Boyland (@Paddy_Boyland) April 17, 2020
So what does Ancelotti do with him? And how does he find balance in midfield? A look with @Worville https://t.co/3GGvHCWVJy
Telja Gomes framar í goggunarröðinni
Portúgalski landsliðsmaðurinn André Gomes er kominn á fulla ferð eftir meiðsli og telja Athletic-menn að Gomes gæti verið fyrsti kostur Ancelottis á miðjunni þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst að nýju. Ekki muni virka vel að láta Gylfa spila þar með honum þar sem að hvorugur sé nægilega sterkur varnarlega. Þar henti Morgan Schneiderlin eða Fabian Delph betur en Ancelotti vilji finna sterkari leikmann í hlutverk aftasta miðjumannsins.
Að mati blaðamannanna hentar Gylfi ekki vel sem kantmaður og telja þeir að Alex Iwobi og Bernard standi betur að vígi. Besta lausnin fyrir Gylfa væri að Ancelotti breytti yfir í 4-2-3-1 leikkerfi, frá sínu uppáhaldskerfi, rétt eins og Silva gerði á sínum tíma. Það sé ólíklegt og því sé Gylfi orðinn að fílnum í herberginu á nýjan leik. Silva hafi breytt til og Gylfi blómstrað í eitt tímabil, en lausnin sé ekki eins einföld núna.