Fótbolti

Messi fékk milljarði meira en Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo við hlið Lionel Mess á verðlaunahátíð UEFA í tengslum við dráttinn í Meistaradeildinni.
Cristiano Ronaldo við hlið Lionel Mess á verðlaunahátíð UEFA í tengslum við dráttinn í Meistaradeildinni. Getty/Harold Cunningham

Lionel Messi er tekjuhæsti knattspyrnumaður heims en Forbes hefur reiknað það út að hann fái 126 milljonir dollara í árslaun eða sautján milljarða króna.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru þeir einu með meira en hundrað milljónir dollara í árstekjur en í samantekt Forbes eru teknar með allar tekjur, það er bæði laun og aðrar tekjur vegna auglýsingasamninga.

Lionel Messi fékk níu milljónum dollara meira borgað en Cristiano Ronaldo sem er meira en milljarður í íslenskum krónum.

Munurinn liggur í betri launum Messi hjá Barcelona en Ronaldo fær hjá Juventus. Það dugar því ekki Cristiano Ronaldo að fá mun meiri tekjur vegna auglýsingasamninga.

Lionel Messi fékk 92 milljónir dollara í laun og 34 milljónir í gegnum auglýsingasamninga. Ronaldo fékk 70 milljónir dollara í laun og 47 milljónir í tekjur vegna auglýsingasamninga.

Messi er þannig að fá 22 milljónum dollara meira í laun eða tæpum þremur milljörðum króna meira á meðan að Ronaldo er að fá þrettán milljónir dollara meira í gegnum auglýsingasamninga eða 1,8 milljörðum króna meira en Messi.

Paris Saint Germain á næstu tvo menn á listanum sem eru þeir Neymar og Kylian Mbappe. Neymar fékk 96 milljónir dollara í heildartekjur á árinu. Það er síðan mjög langt niður í Mbappe sem var með 42 milljónir dollara í árstekjur.

Þrír leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni komast á topp tíu listann en það eru Mohamed Salah, Paul Pogba og David de Gea. Egyptinn var tekjuhæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 37 milljónir Bandaríkjadala eða þremur milljónum meira en Paul Pogba.

Tekjuhæstu knattspyrnumenn heims samkvæmt Forbes:

  • 1. Lionel Messi (Barcelona og Argentína) 126 milljónir dollara
  • 2. Cristiano Ronaldo (Juventus og Portúgal) 117 milljónir dollara
  • 3. Neymar (Paris St-Germain og Brasilía ) 96 milljónir dollara
  • 4. Kylian Mbappe (Paris St-Germain og Frakkland) 42 milljónir dollara
  • 5. Mohamed Salah (Liverpool og Egyptaland) 37 milljónir dollara
  • 6. Paul Pogba (Manchester United og Frakkland ) 34 milljónir dollara
  • 7. Antoine Griezmann (Barcelona og Frakkland) 33 milljónir dollara
  • 8. Gareth Bale (Real Madrid og Wales) 29 milljónir dollara
  • 9. Robert Lewandowski (Bayern München og Pólland) 28 milljónir dollara
  • 10. David de Gea (Manchester United og Spánn) 27 milljónir dollara



Fleiri fréttir

Sjá meira


×