Fótbolti

Hægt að kjósa Söru Björk Gunnarsdóttur í lið ársins hjá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir lyftir Meistaradeildarbikarnum í haust.
Sara Björk Gunnarsdóttir lyftir Meistaradeildarbikarnum í haust. Getty/Alex Caparros

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er ein af þeim sem kemur til greina í lið ársins hjá UEFA.

Árið 2020 er mjög eftirminnilegt fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur og verður vonandi enn eftirminnilegra eftir daginn í dag þar sem íslenska kvennalandsliðið getur tryggt sér sæti á Evrópumótinu í Englandi.

UEFA stendur fyrir kjöri á liði ársins í karla- og kvennaflokki og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr kosningunni á liði ársins hjá konunum því þar á íslenska þjóðin flottan fulltrúa.

Sara Björk Gunnarsdóttir er ein af fimmtán miðjumönnum sem eru tilnefndar en Íslendingar sem og aðrir geta gefið Söru Björk atkvæði sitt í netkosningu á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

Sumir gagnrýndu það þegar Sara Björk var ekki tilnefnd sem ein af tíu bestu leikmönnum ársins hjá FIFA en hún átti magnað tímabil með þýska liðinu Wolfsburg og franska liðinu Lyon.

Sara Björk vann tvöfalt með Wolfsborg og franska bikarinn með Lyon auk þess að hjálpa báðum liðum að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Sara Björk spilaði úrslitaleikinn með Lyon og innsiglaði sigur liðsins með því að skora þriðja mark liðsins í úrslitaleiknum. Sara Björk þótti vera best á vellinum að mati sumra sérfræðinga og það var engin vafi á því í augum okkar Íslendinga.

Það er alveg ljóst að okkar konan hefur allt til alls til að komast í úrvalsliðið og ljóst að Íslendingar geta hjálpað henni að komast þangað.

Það er hægt að kjósa Söru Björk í lið ársins hjá UEFA með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×