Fótbolti

Sevilla galopnaði titilbaráttuna á Spáni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucas Ocampos lét Jan Oblak verja vítaspyrnu sína. Það kom þó ekki að sök og Sevilla vann 1-0.
Lucas Ocampos lét Jan Oblak verja vítaspyrnu sína. Það kom þó ekki að sök og Sevilla vann 1-0. Fran Santiago/Getty Images

Atletico Madrid, topplið spænsku úrvalsdeildarinnar, heimsótti Sevilla í kvöld. Marcos Acuna skoraði eina mark leiksins fyrir heimamenn og niðurstaðan 1-0 sigur Sevilla. Þessi úrslit þýða að titilbaráttan á Spáni er nú galopin þar sem Atletico Madrid náði ekki að auka forskot sitt á spænsku risana Real Madrid og Barcelona.

Það dró til tíðinda strax á áttundu mínútu þegar Saul Niguez braut á Ivan Rakitic innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Lucas Ocampos fór á punktinn en Jan Oblak sá við honum í marki Atletico.

Markalaust var þegar flautað var til hálfleiks, og alveg fram á 70. mínútu leiksins þegar Marcos Acuna stangaði boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Jesus Navas.

Hávær mótmæli leikamanna Atletico trufluðu dómaran ekki, en boltinn hafði augljóslega farið í hönd Lucas Ocampos þegar Kieran Trippier reyndi að hreinsa frá. Dómarinn mat það hinsvegar þannig að þetta atvik hafi ekki verið hluti af aðdraganda marksins og fékk það því að standa.

Fleiri urðu mörkin ekki og 1-0 sigur heimamanna því staðreynd.

Úrslitin þýða að Atletico Madrid er enn á toppi spænsku deildarinnar með 66 stig, þrem stigum fyrir ofan nágranna sína í Real Madrid og fjórum stigum á undan Barcelona sem spilar við Real Valladolid á morgun og getur minnkað muninn í eitt stig.

Sevilla fer upp í 58 stig í fjórða sæti og getur með góðum úrslitum í næstu leikjum hrifsað þriðja og jafnvel annað sætið af Real Madrid og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×