Fótbolti

Óttar Magnús meiddur og spilar ekki meira á þessari leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óttar Magnús leikur ekki meira með Venezia á leiktíðinni.
Óttar Magnús leikur ekki meira með Venezia á leiktíðinni. Paola Garbuio/LaPressex

Framherjinn Óttar Magnús Karlsson er með brotið bein í rist og mun því ekki leika meira með Venezia í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð.

Þegar fjórir leikir eru eftir í ítölsku B-deildinni er ljóst að hinn 24 ára gamli Óttar Magnús mun ekki geta aðstoðað liðið í baráttunni um sæti í efstu deild. Talið er að þessi fyrrum leikmaður Víkings Reykjavíkur verði frá næstu átta vikurnar vegna meiðslanna. Fótbolti.net greindi frá fyrr í dag.

Óttar Magnús hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann fór til Venezia síðasta sumar og verið mikið meiddur. Hann hefur aðeins komið við sögu í sjö leikjum til þessa og ljóst að þeir verða ekki fleiri á þessari leiktíð.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Óttar Magnús farið víða en hann samdi ungur að árum við Ajaxí Hollandi. Eftir að spila með Víkingum árið 2016 fór hann til Molde í Noregi. Þaðan fór hann á láni til Trelleborgs í Svíþjóð áður en hann samdi við Mjällby AIF.

Eftir dvölina kom hann til Víkings sumarið 2019 og lék með uppeldisfélaginu þangað til ítalska félagið Venezia keypti hann síðasta sumar. Þegar fjórar umferðir eru eftir af ítölsku B-deildinni stefnir allt í að Venezia komist í umspil.

Liðið er sem stendur með 53 stig í 5. sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Monza í 4. sætinu en að sama skapi aðeins þremur stigum á undan Cittadella og Spal sem eru í 6. og 7. sæti deildarinnar.

Alls fara sex lið í umspil um sæti í deild þeirra bestu. Liðin í 3. og 4. sæti fara beint í undanúrslit umspilsins á meðan liðin í 5. til 8. sæti mætast innbyrðis og sigurvegararnir þar komast í undanúrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×