Fótbolti

„Barça verður aldrei samt án þín“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Cesc Fabregas og Lionel Messi eru góðir félagar.
Cesc Fabregas og Lionel Messi eru góðir félagar. Mynd/Nordic Photos/Getty

Spánverjinn Cesc Fabregas, sem leikur með Mónakó í Frakklandi, sendi Lionel Messi hjartnæma kveðju á samfélagsmiðlinum Twitter. Fabregas er jafnaldri Messi og æfði með honum sem unglingur áður en þeir spiluðu saman fyrir aðallið Barcelona síðar.

Hinn 34 ára gamli Fabregas ólst upp hjá Barcelona og lék með unglingaliði félagsins þegar Messi gekk í raðir liðsins 13 ára gamall árið 2000.

„Ég mun alltaf muna daginn sem þú komst í búningsklefann þegar ég var 13 ára gamall og þeir sögðu okkur að strákur frá Argentínu væri að koma á æfingu. Þú settist niður og sagðir ekki orð allan tímann. Þjálfarinn sagði mér í 1-á-1 æfingu að vera öflugur gegn þér. Ég sá að þú varst lítill, og hélt að ég myndi auðveldlega ná af þér boltanum.“

„Það var kjánalegt af mér, þú skyldir mig eftir á gólfinu og ég sá þá strax og þú varst frábrugðinn öðrum. Draumur minn var alltaf að spila með aðalliða Barca, og að gera það með þér gerði þann draum enn sérstakari,“ segir Fabregas í færslu sinni. Fabregas fór 16 ára gamall til Arsenal árið 2003 en sneri svo aftur til Katalóníu árið 2011 og lék með Messi þar til ársins 2014.

Fabregas segir Messi vera besta leikmanna allra tíma og að Barcelona verði ekki eins án argentínska snillingsins. Messi er á förum frá Barcelona og er á leið til Paris Saint-Germain í Frakklandi.

„Þú yfirgefur liðið sem besti leikmaður allra tíma. Barça verður aldrei samt án þín,“ segir Fabregas. „Takk fyrir allt sem þú hefur gefið af þér og allt sem þú ert,“.

Eftir tíma sinn hjá Barcelona lék Fabregas með Chelsea á Englandi frá 2014 til 2019 en hefur síðan leikið með Mónakó í Frakklandi.


Tengdar fréttir

Messi sagður skrifa undir í París á morgun

Lionel Messi mun skrifa undir hjá franska knattspyrnufélaginu Paris Saint-Germain fljótlega eftir helgi. Frá þessu greina erlendir fjölmiðlar en Messi kvaddi Barcelona á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×