Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 21 prósent atkvæða en fékk 25,2 prósent í kosningunum 2017. Vinstri græn tapa einnig rúmlega fimm prósentustigum frá síðustu kosningum. Samfylkingin bætir við sig frá 2017 og mælist nú með 14,6 prósenta fylgi. Píratar og Viðreisn bæta við sig og Sósíalistaflokkurinn kemur nýr inn með 6,1 prósent.

Ef við skoðum þingmannatöluna samkvæmt könnun Maskínu þá fengju Stjórnarflokkarnir samanlagt 29 þingmenn og þar með er stjórnarmeirihlurinn fallinn en 32 þingmenn þarf í lágmarks meirihluta á þingi. Vinstri græn, Samfylking, Píratar og Viðreisn gætu hins vegar myndað þrjátíu og þriggja manna meirihluta á Alþingi samkvæmt könnuninni.


Hanna Katrín Friðriksson sem er í fyrsta sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík suður vildi þó ekki lofa neinu um samstarf við aðra flokka að loknum kosningum í Pallborðinu á Vísi fyrr í dag.

„Ég veit að þetta er leiðinlegt svar fyrir þá sem vilja smá hasar. En það er ómögulegt fyrir ábyrgt fólk í stjórnmálum að svara öðruvísi en þannig ellefu dögum fyrir kosningar að málefnin ráða för. Við erum bara í þeim veruleika núna með þennan fjölda flokka,“ sagði Hanna Katrín.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi svaraði spurningunni um mögulegt stjórnarsamstarf að loknum kosningum á svipuðum nótum. Hann var ekki sáttur við fylgistap VG eftir fjögur ár í ríkisstjórn.

„Þetta er undir væntingum hjá okkur ef þetta yrði niðurstaðan að sjálfsögðu. Við stefnum á að fá talsvert meira en þetta og halda meiri styrk inn á þingi. Enda held ég að það sé mjög mikilvægt ef Katrín Jakobsdóttir á að geta verið forsætisráðherra áfram sem er það sem við viljum,“ sagði Guðmundur Ingi.
Samkvæmt könnun Maskínu fengi Flokkur fólksins aðeins einn þingmann og hann kæmi úr Suðurkjördæmi. Inga Sæland formaður flokksins er hins vegar í fyrsta sæti flokksins í Reykjavík suður og kæmist þar af leiðandi ekki á þing samkvæmt könnuninni.

„Það er svo gaman að vera í pólitík. Þannig að ég er bara bjartsýn og brosandi og bíð eftir að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum.“
Þannig að ellefu dagar ættu að duga til að koma þér inn á þing?
„Ekki spurning,“ sagði Inga Sæland í Pallborðinu sem sjá má í heild sinni hér á Vísi.