Fótbolti

Mikael lék hálfan leik fótbrotinn og fékk Covid

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Egill Ellertsson á ferðinni í leik gegn Liechtenstein á Laugardalsvelli í haust.
Mikael Egill Ellertsson á ferðinni í leik gegn Liechtenstein á Laugardalsvelli í haust. vísir/vilhelm

Mikael Egill Ellertsson, landsliðsmaðurinn ungi í fótbolta, fótbrotnaði í síðasta leik fyrir jólafrí og smitaðist sömuleiðis af kórónuveirunni.

Mikael, sem er 19 ára gamall, lék fyrstu fjóra A-landsleiki sína á nýliðnu ári, alla í undankeppni HM.

Árinu lauk hins vegar ekki eins skemmtilega hjá þessum sóknarsinnaða leikmanni SPAL á Ítalíu. Í viðtali við Fótbolta.net greinir Mikael frá því að hann hafi fótbrotnað í leik gegn Frosinone 18. desember.

Mikael segist hafa meiðst strax á 3. mínútu leiksins en hann lék engu að síður allan fyrri hálfleikinn. Það tók svo sinn tíma að koma honum í röngtenmyndatöku til að skoða brotið betur því hann greindist með kórónuveirusmit.

„Þetta var ekkert spes. Ég fór beint í einangrun eftir leik og gat ekkert tékkað á löppinni og svo var ég með covid. Það var erfitt að redda X-ray myndatöku en það gekk upp og ég var sóttur heim til mín á sjúkrabíl og farið beint á sjúkrahúsið,“ segir Mikael við Fótbolta.net.

Útlit er fyrir að Mikael verði frá keppni fram í byrjun mars vegna fótbrotsins en hann þarf ekki að fara í neina aðgerð vegna meiðslanna.

Mikael verður því líklega klár í slaginn þegar Ísland leikur tvo vináttulandsleiki í lok mars. Annar leikurinn verður gegn Spánverjum á Spáni 29. mars en enn er óljóst hver hinn andstæðingurinn verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×