Fótbolti

Spænsku meistararnir upp í Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atlético Madrid vann góðan 3-1 sigur gegn Real Betis í kvöld.
Atlético Madrid vann góðan 3-1 sigur gegn Real Betis í kvöld. Fran Santiago/Getty Images

Spánarmeistarar Atlético Madrid lyftu sér upp í fjórða sæti spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3-1 útisigri gegn Real Betis í kvöld.

Joao Felix kom gestunum í Atlético Madrid í forystu strax á annarri mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Angel Correa.

Það leit allt út fyrir að gestirnir færu með forystuna inn í hálfleikinn, en Cristian Tello jafnaði metin fyrir Real Betis á annarri mínútu uppbótartíma og sá til þess að staðan var 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Joao Felix kom gestunum yfir á ný eftir rétt rúmlega klukkutíma leik og það var svo Thomas Lemar sem tryggði liðinu 3-1 sigur þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Atlético Madrid situr nú í fjórða sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 48 stig eftir 27 leiki, tveimur stigum meira en Real Betis sem situr í fimmta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×