Vilhjálmur, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hlaut sjötíu atkvæði (53,85 prósent) og Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði, sextíu atkvæði (46,15 prósent). Alls greiddu 130 manns atkvæði í formannskjörinu.
„Framundan eru bara kjarasamningar á hinum íslenska vinnumarkaði. Þeir eru lausir í október og liggur fyrir að við munum þurfa að einhenda okkur í það að láta lágmarkslaun á Íslandi duga fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.
Honum blöskrar staða láglaunafólks hér á landi.

„Því miður er staðan þannig í dag að það gerir það ekki. Það er að mínu áliti Samtökum atvinnulífsins, okkur í verkalýðshreyfingunni og samfélaginu öllu til ævarandi skammar að við séum með laun sem duga ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar.“
Aðspurður um umboð sitt að loknum kosningum segir Vilhjálmur:
„Þetta er einfaldlega þannig að þegar um fulltrúalýðræði er að ræða getur farið svo. Þetta er sterkara umboð en ég átti von á. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hreyfingin hefur verið dálítið klofin. En fulltrúalýðræðið virkar svona. Umboðið tel ég vera ótvírætt. Við skulum ekki gleyma því að Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landsambandið innan Alþýðusambandsins, með 72 þúsund félagsmenn á bak við sig. Þetta afl er sterkt og með samstilltu átaki eigum við að geta gert ótrúlega marga jákvæða hluti fyrir okkar félagsmenn.“
Hart hefur verið deilt í verkalýðshreyfingunni undanfarnar vikur. Tekist á í greinaskrifum og ljóst að fylkingin er klofin.
„Það er alveg ljóst að barátta í verkalýðshreyfingunni er alltaf til staðar. Við höfum tekist á í gegnum árin. Þær eru nauðsynlegar. Það er nauðsynlegt að takast á um stefnur og markmið, hvaða leiðir eigi að fara. Það er ekkert nýtt. Auðvitað þurfum við svo að einhenda okkur í það, þegar við höfum komist að niðurstöðu um það hvaða leiðir við viljum fara, þurfum við að taka höndum saman og fara sem ein öflug stór heild með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi.“