Fótbolti

Ancelotti fyrstur til að vinna allar fimm stærstu deildir Evrópu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carlo Ancelotti er gjörsamlega titlaóður.
Carlo Ancelotti er gjörsamlega titlaóður. Gonzalo Arroyo Moreno/Getty Images

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, gerði liðið að spænskum meisturum með öruggum 4-0 sigri gegn Espanyol í gær. Þar með hefur Ancelotti unnið allar fimm stærstu deildir Evrópu á þjálfaraferli sínum.

Engum öðrum stjóra hefur tekist að vinna stærstu deildirnar fimm. Hann hefur nú orðið meistari í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Englandi og nú loks á Spáni.

Ancelotti vann sinn fyrsta stóra deildarmeistaratitil árið 2004 þegar hann gerði AC Milan að ítölskum meisturum. Árið 2010 gerði hann svo Chelsea að enskum meisturum áður en PSG varð franskur meistari undir hans stjórn árið 2013. Þá gerði hann Bayern München að þýskum meisturum árið 2017 og hann lokaði hringnum með því að gera Real Madrid að spænskum meisturum í gær.

Þessi 62 ára gamli þjálfari hefur áður reynt við spænsku deildina, en hann var þjálfari Real Madrid frá 2013 til 2015. Á þeim tveimur árum sem hann stýrði liðinu vann liðið fimm titla, en deildarmeistaratitillinn var ekki einn þeirra.

Hann tók svo aftur við liðinu seinasta sumar eftir 18 mánaða viðveru hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×