Fótbolti

Klopp tekur af öll tvímæli um framtíð Firmino

Hjörvar Ólafsson skrifar
Roberto Firmino er ekki á förum frá Liverpool að sögn Jürgen Klopp. 
Roberto Firmino er ekki á förum frá Liverpool að sögn Jürgen Klopp.  Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir ekkert til í því sem fram hefur komið í ítölskum fjölmiðlum síðustu daga að Roberto Firmino sé að nálgast vistaskipti til Juventus.

Firmino verður samningslaus hjá Liverpool næsta sumar en meiðsli urðu til þess að hann spilaði einungis 20 deildarleiki á síðustu leiktíð. 

Þessi þrítugi framherji er hins vegar enn í miklum metum hjá Klopp og klárlega í framtíðaráformum félagsins að hans sögn.

„Bobby er mjög mikilvægur hluti af okkar liði og hann er hjartað og sálin í liðinu. 

Það er allt í góðu á milli okkar og ég hef verið mjög ánægður með hann í sumar. Það er enginn vafi í mínum huga að hann verður mjög mikilvægur fyrir okkur á komandi tímabili," sagði Klopp um téðar sögusagnir á blaðamannafundi fyrir Liverpool við Manchester City um Samfélagsskjöldinn.  

Töluverð endurnýjun hefur orðið á framlínu Liverpool síðasta misserð en Luis Diaz kom í janúarglugganum í upphafi þessa árs og Fabio Carvalho og Darwin Nunez í sumar.  

Sadio Mané, Takumi Minamino og Divock Origi eru hins vegar horfnir á braut. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×