Varamennirnir tryggðu Japönum sigur á Þjóðverjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Takuma Asano skýtur boltanum meðfram kinninni á Manuel Neuer og skorar sigurmark Japans gegn Þýskalandi.
Takuma Asano skýtur boltanum meðfram kinninni á Manuel Neuer og skorar sigurmark Japans gegn Þýskalandi. getty/Dean Mouhtaropoulos

Japan gerði sér lítið fyrir og vann Þýskaland, 1-2, í fyrri leik dagsins í E-riðli heimsmeistaramótsins í Katar. Japanir voru undir í hálfleik en komu til baka, skoruðu tvö mörk með átta mínútna millibili og tryggðu sér sigurinn. Báðir markaskorarar Japans leika í Þýskalandi.

Annað heimsmeistaramótið í röð tapar Þýskaland því fyrsta leik sínum. Á HM 2018 töpuðu Þjóðverjar fyrir Mexíkóum, 2-0, og komust ekki upp úr riðlinum.

Lengi vel benti flest til þess að Þýskaland myndi byrja betur að þessu sinni. Á 33. mínútu kom Ilkay Gündogan Þjóðverjum yfir með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Shuichi Gonda fyrir brot á David Raum. Staðan í hálfleik var 0-1, þýska liðinu í vil.

Ritsu Doan skorar jöfnunarmark Japans.getty/Alex Grimm

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka jafnaði Ritsu Doan, sem leikur með Freiburg, fyrir Japan, fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Manuel Neuer sló þá fyrirgjöf Takumis Minamino út í vítateiginn, beint á Doan sem skoraði.

Á 83. mínútu átti miðvörðurinn Ko Itakura svo langa sendingu fram á Takuma Asano, leikmann Bochum, sem slapp í gegnum vörn Þýskalands, þrumaði boltanum upp í þaknetið og kom Japan yfir.

Þjóðverjar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en japanska vörnin stóð vaktina vel. Jöfnunarmarkið leit ekki dagsins ljós og Japanir fögnuðu frábærum sigri, 1-2.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira