Fótbolti

Håland mættur til Barcelona í með­höndlun til að ná stór­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erling Braut Håland gæti misst af stórleik Manchester City og Liverpool.
Erling Braut Håland gæti misst af stórleik Manchester City og Liverpool. Richard Callis/Getty Images

Erling Braut Håland, stjörnuframherji Manchester City, er tæpur fyrir leik liðsins gegn Liverpool þann 1. apríl næstkomandi. Hann er mættur til Katalóníu en þangað sendir Man City leikmenn sína er þeir glíma við meiðsli.

Hinn 22 ára gamli Håland hefur skorað og skorað á leiktíðinni. Sem stendur er hann með 42 mörk í 37 leikjum í öllum keppnum. Hann er hins vegar meiddur á nára og þurfti að draga sig úr landsliðshópi Noregs sem hefur leik í undankeppni EM 2024 í núverandi landsleikjaglugga.

„Hann verður að setja heilsuna í forgang og reyna komast aftur í sitt besta form. Honum gengur vel en er sorgmæddur [að vera ekki með Noregi],“ sagði Alfie Håland, faðir Erlings, við TV2.

„Manchester City vinnur náið með spítala í Barcelona. Hann hefur verið þar í meðhöndlun og athugunum. Nú er hann kominn til Marbella þar sem hann verður í nokkra daga með sjúkraþjálfara frá félaginu. Það er fylgst vel með honum,“ bætti Alfie við.

Manchester City er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Arsenal en með leik til góða. Liverpool er í 6. sæti með 42 stig, sjö stigum á eftir Newcastle United í fjórða sætinu en með tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×