Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins komu saman í dag til sögulegs tveggja daga fundar í Vilnius í Litháen. Forseti Tyrklands tilkynnti á síðustu stundu í gær að hann sætti sig við aðild Svía aðbandalaginu þannig að þeim var formlega boðin aðild að NATO í dag sem verður síðan endanlega staðfest af þjóðþingum Tyrklands og Ungverjalands sem einnig var meðfyrirvara við aðild Svía.

Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO segir bandalagsþjóðirnar hafa náð saman um þrjá þætti til að tryggja aðilda Úkraínu að NATO.
„Í fyrsta lagi nýnokkurra ára aðstoðaráætlun fyrir Úkraínu til að auðvelda umskiptin frá sovét-tímanum til NATO-staðla, þjálfunar og reglna,“ sagði Stoltenberg.
Þetta feli meðal annars í sér aðstoð við endurskipulagningu öryggis- og varnarmála Úkraínu, öflun eldsneytis, eyðingu jarðsprengja og útvegun sjúkragagna.
„Í öðru lagi nýtt Úkraínuráð NATO sem er vettvangur fyrir samráð og ákvarðanatöku þar sem við mætumst sem jafningjar.“
Hann hlakkaði til fyrsta fundar ráðsins meðVolodymyr Zelensky á morgun.
„Í þriðja lagi staðfestum við að Úkraína mun fá aðild að NATO og samþykktum að nema úr gildi kröfu um aðgerðaáætlun. Þetta breytir aðildarferli Úkraínu úr tveggja skrefa ferli í eins skrefs ferli,“ sagði Stoltenberg.
Aðildarríkin muni bjóða Úkraínu í NATO þegar þessi skilyrði hefðu veriðuppfyllt.
„Ég samþykkti einnig ítarlegustu varnaráætlanir frá lokum kalda stríðsins. Þær miða að því að sporna gegn þeim tveim helstu hættum sem að okkur steðja: Rússlandi og hryðjuverkum,“ sagði Jens Stoltenberg í dag.
Katrín segir innrás Rússa hafa breytt NATO
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fund forseta og forsætisráðherra aðildarríkjanna í dag. Hún segir fundinn í Vilníus sögulegan.

„Og auðvitað eru það ákveðin tíðindi að afleiðingin af innrás Rússa í Úkraínu sé meðal annars það að Atlantshafsbandalagið hefur stækkað. Fleiri aðildarríki eru að bætast í hópinn. Finnland orðið aðildarríki og stefnir í að Svíþjóð verði það núna hraðbyri,“ segir Katrín.
Mikil sátt hafi verið meðal aðildarríkjanna um áframhaldandi stuðning við Úkraínu.
„Ég les nú stöðuna þannig að það sé mikil og breið samstaða um aðild Úkraínu. En að sjálfsögðu ákveðið litróf á því hversu langt eigi að ganga í orðalagi á þessum fundi. Það er búið að sitja yfir því orðalagi í allan dag. Þar er líka verið að ræða orðalag varðandi öryggistryggingar, eins og það hefur verið orðað, og hvernig megi útfæra það. En ég bind vonir við að þetta verði mjög skýr skilaboð,“ segir Katrín Jakobsdóttir.