Bændur í Djúpadal voru heimsóttir í fréttum Stöðvar 2 en þeir eru meðal þeirra sem finna fyrir hvað mestum breytingum með vegarbótum um Gufudalssveit. Þeir eru þessa dagana að smala fé af fjalli.
„Það gekk bara vel að safna því saman. En við erum svo sem að draga saman í sauðfjárræktinni, nánast að hætta. Núna er það bara ferðamaðurinn sem tekur við,“ segir Leifur Samúelsson, bóndi í Djúpadal.

Með færslu Vestfjarðavegar hverfur Djúpidalur úr alfaraleið en þó ekki strax.
„Næstu 4-5 árin væntanlega verður keyrt áfram hérna inn eftir, framhjá okkur. En það er svo sem ágætt að losna við einn fjallveg.“
Já, þegar vegurinn um Teigsskóg opnast losna Djúpadalsbændur við Hjallaháls. Leifur segir hann svo sem ekki hafa verið vandamál fyrir þau. Hann sé þó skelfilegur núna enda hafi viðhaldi hans verið lítið sinnt miðað við umferð. Hann óttast þó að snjóþyngsli í Teigsskógi verði ekki minni en á Hjallahálsi.

„Það eru staðir í Teigsskógi, ef það gerir alvöru vetur, þá verður ansi mikill snjór víða, sýnist mér,“ segir Leifur en segir samt fínt að losna við Hjallahálsinn.
„Og keyra láglendisveg, ég tala nú ekki um á slitlagi. Vera laus við drulluna og grjótið.
En það er líka ágætt að hafa Hjallaháls tilbúinn ef það gerir alvöru snjó og Teigsskógur verður ófær, að nota hann sem vetrarveg,“ segir bóndinn.

Íbúar Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals eru núna einu þéttbýlisbúar landsins sem þurfa að aka á malarvegum til að tengjast þjóðvegakerfi landsins. Á sunnanverðum Vestfjörðum höfðu menn vonast til að þessari áþján malarveganna myndi ljúka á næsta ári. Biðin eftir slitlaginu verður hins vegar mun lengri.

Ástæðan er niðurskurður ríkisstjórnarinnar á framlögum til vegagerðar, sem veldur því að þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar seinkar að öllum líkindum um þrjú ár. Í stað verkloka árið 2024 stefnir núna í að þau verði árið 2027.
„Við krefjum þess að þeim verði ekki seinkað. Þetta eru gríðarlega mikilvægar samgöngur hér á milli svæðanna,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

„Þessu er að seinka um nokkur ár. Þetta átti allt að vera tilbúið á svipuðum tíma. Þetta eru sjálfsagt einhver þrjú til fimm ár þangað til þetta verður tilbúið. Og ég held að sérstaklega í Vesturbyggð hljóti menn að vera óánægðir með það. Að þurfa að nota Ódrjúgshálsinn áfram,“ segir Leifur í Djúpadal.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: