Sakaruppgjöfin mun ná yfir meira en fjögur þúsund manns, flest hverra eru opinberir starfsmenn og óbreyttir borgarar sem tóku með einum eða öðrum hætti þátt í kosningu um sjálfstæðisyfirlýsingu sem var úrskurðuð ólögmæt af spænskum dómsvöldum. Sakaruppgjöfin mun einnig ná allt til ársins 2012, talsvert fyrir kosninguna. Þessu greinir DW frá.
Útlaginn snúi aftur
Andstæðingar sósíalista segja samkomulagið jafngilda því að fá atkvæði í skiptum fyrir lögleysu. Samningurinn er gríðarlega umdeildur á Spáni en án þingmanna Junts-flokksins sem útlaginn Carles Puigdemont stofnaði, er líklegt að ganga þurfi til kosninga á ný. Sósíalistar hafa þegar náð samkomulagi við annan katalónskan aðskilnaðarflokk, Katalónska vinstri-lýðveldisflokkinn, um ríkisstjórnarmyndun.

Carles Puigdemont var forseti Katalóníu og leiðtogi sjálfstæðisherferðarinnar. Eftir mikil mótmæli og átök í Katalóníu var kosningin dæmd ólögmæt af hæstarétti Spánar og Carles kærður fyrir landráð. Í kjölfarið flúði hann til Brussel og hefur verið í útlegð þar síðan.
Ef spænska þingið samþykkir þetta samkomulag má leiða að því líkum að Carles snúi aftur til Spánar og til katalónskra stjórnmála.
Ofbeldisfull mótmæli
Leiðtogi öfgahægriflokksins Vox, Santiago Abascal, kallar þetta ógn við samheldni spænsku þjóðarinnar og sakar Pedro um að gera hvað sem er til að halda völdum. Leiðtogar Lýðflokksins, helsta andstöðuflokks sósíalista, efndu til stórra mótmæla í borginni Malaga á sunnudaginn og halda því fram að meira en 20 þúsund manns hafi sótt þau.

Það var einnig mótmælt í Madríd á þriðjudagskvöld fyrir utan höfuðstöðvar sósíalista. Um sjö þúsund manns sóttu mótmælin, þar á meðal öfgamenn úr röðum Vox, fleiri öfgahópa og nýnasistahópa. Myndbandsefni frá mótmælunum frá El País sýnir hóp mótmælenda úthrópa forsætisráðherrann. Þeir kölluðu hann meðal annars „tíkarson,“ „glæpamann“ og „einræðisherra“ ásamt „fagga“. 39 manns særðust á téðum mótmælum, flestir þeirra lögreglumenn.