Fótbolti

West Ham nær sam­komu­lagi við Englandsmeistarana um Phillips

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kalvin Phillips verður að öllum líkindum lánaður til West Ham.
Kalvin Phillips verður að öllum líkindum lánaður til West Ham. Khalid Alhaj/MB Media/Getty Images

Ensku úrvalsdeildarfélögin West Ham og Manchester City hafa komist að samkomulagi um að West Ham fái miðjumanninn Kalvin Phillips á láni út tímabilið.

Hinn 28 ára gamlu Phillips gekk í raðir City frá Leeds sumarið 2022 fyrir 45 milljónir punda, sem samsvarar um 7,8 milljörðum króna.

Phillips hehefur hins vegar átt erfitt uppdráttar hjá Englandsmeisturunum og hefur aðeins byrjað tvo leiki í öllum keppnum fyrir liðið á yfirstandandi tímabili. Alls hefur hann aðeins leikið 16 deildarleiki fyrir félagið síðan hann gekk í raðir Manchester City.

Fleiri lið en West Ham hafa haft áhuga á því að krækja í Phillips í janúarglugganum, en Juventus er einnig sagt hafa áhuga á miðjumanninum. Nú lítur hins vegar út fyrir að Phillips muni gangast undir læknisskoðun í Lundúnum síðar í þessari viku, jafnvel strax á morgun, miðvikudag.

Þá er ekki búist við því að nein vandræði muni koma upp í samningaviðræðum leikmannsins við West Ham, en talið er að Hamrarnir muni greiða allan launakostnað leikmannsins og að í lánssamningnum verði möguleiki á kaupum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×