Þar kemur fram að tilraunir í þessa átt hafi þegar verið gerðar, þegar gengið var til forsetakosninga í Taívan í janúar síðastliðnum, og að stjórnvöld í Norður-Kóreu muni einnig koma að málum.
Microsoft segir Kína munu „hið minnsta“ framleiða og dreifa gervigreindarunnu efni sem muni styrkja hagmuni þeirra í umræddum kosningum.
Fyrirtækið segir aðgerðirnar munu hafa aðeins lítilsháttar áhrif. Enn sem komið er hafi efni sem búið er til með gervigreind eða átt er við með gervigreind lítil áhrif á kjósendur en það gæti hins vegar breyst eftir því sem tækninni fleygir fram og Kínverjar verða betri í því að breyta myndskeiðum og hljóðupptökum.
Samkvæmt umfjöllun Guardian beitti hópur, sem kallar sig ýmist Storm 1376, Spamouflage eða Dragonbridge og nýtur stuðnings stjórnvalda í Kína, sér í forsetakosningunum í Taívan. Birti hann meðal annars falsaða hljóðupptöku af frambjóðandanum Terry Gou á YouTube.
Þá birti hópurinn einnig fjölda „míma“ þar sem hann gerði því skóna að William Lai, sem sigraði á endanum, hefði dregið sér fé úr sjóðum ríkisins og myndskeiðum þar sem gervigreindarskapaðir fréttaþulir lásu miður fallegar fréttir um einkalíf Lai.
Microsoft segir fréttaþulina hafa verið búna til með CapCut-tólinu, sem var þróað af kínverska fyrirtækinu ByteDance. ByteDance er eigandi TikTok.