Innlent

Óttast að maður hafi fallið í Hlauptungufoss

Kolbeinn Tumi Daðason og Jón Þór Stefánsson skrifa
Hlauptungufoss í Brúará.
Hlauptungufoss í Brúará. Getty

Lögreglan á Suðurlandi hefur óskað eftir liðsinni þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyss við Brúará í Bláskógabyggð á Suðurlandi. Björgunarsveitarfólk hefur verið kallað á vettvang.

Sveinn Kristján Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi, segir í samtali við fréttastofu að lögreglu hafi borist tilkynning um að maður hafi fallið í Hlauptungufoss í Brúará um eittleytið í dag. 

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við fréttastofu, að tvær þyrlur hafi verið sendar á vettvang. Önnur þeirra hefur þrjá kafara innanborðs.

Brúará, og þá sérstaklega Brúarárfoss, er vinsæll ferðamannastaður á Suðurlandi. Hann er þekktur fyrir fagurbláan lit sinn og þangað leggja fjölmargir ferðamenn, Íslendingar sem erlendir, leið sína allan ársins hring.

Banaslys varð í Brúará sumarið 2022 þegar kanadískur ríkisborgari kom syni sínum til bjargar sem fallið hafði í ána. Maðurinn féll hins vegar sjálfur í ána og lést. Brúará getur verið mjög straumhörð og köld.

Fréttin er í vinnslu.


Veistu meira um málið? Áttu myndefni af svæðinu? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×