Leik lokið: Stjarnan - Grinda­vík 108-100 | Stjarnan skrefinu á undan

Siggeir Ævarsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson fór á kostum í kvöld, 29 stig og 13 stoðsendingar
Ægir Þór Steinarsson fór á kostum í kvöld, 29 stig og 13 stoðsendingar vísir / jón gautur

Stjarnan tók á móti Grindavík í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar karla en fyrir leikinn í kvöld hafði Grindavík ekki unnið sigur á Stjörnunni utan Grindavíkur síðan í febrúar 2018. Á því varð engin breyting í kvöld en Stjarnan fór að lokum með sigur af hólmi, 108-100.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn með miklum látum, þá sérstaklega Daniel Mortensen, sem setti þrjá þrista í röð í byrjun leiks og kom Grindvíkingum í 2-11. Heimamenn voru að hitta afar illa í byrjun en náðu smám saman að stilla miðið. Hilmar Henningsson setti niður tvo þrista undir lok fyrsta leikhluta og staðan 26-25 Stjörnunni í vil.

Leikurinn var svo algjörlega í járnum fram að hálfleik. Grindvíkingar voru í stökustu vandræðum með að dekka Ægi Þór Steinarsson sem annað hvort skoraði sjálfur eða kom boltanum fljúgandi Shaquille Rombley sem tróð með látum.

Ægir átti svo lokaorðið í hálfleiknum þegar hann setti niður körfu með stóru tána á þriggjastiga línunni, staðan 47-44 í hálfleik en á þeim tímapunkti var Jeremy Pargo með núll stig þrátt fyrir átta skottilraunir.

Stjörnumenn áttu virkilega góðan þriðja leikhluta meðan að Grindvíkingar virtust fyrst og fremst pirraðir. Að DeAndre Kane hafi t.d. ekki fengið tæknivillu í leikhlutanum er rannsókarefni. Heimamenn gengu á lagið og komu muninum upp og leiddu með átta fyrir lokaleikhlutann, 75-68.

Lélegt hittni heimamanna í byrjun átti heldur betur eftir að breytast en sóknarleikur Stjörnunnar varð bara beittari og beittari eftir því sem á leið og Grindvíkingar réðu illa við Ægi Þór og Hilmar Smára sem skoruðu 29 og 27 stig.

Ólafur Ólafsson gerði mjög heiðarlega tilraun til að koma Grindvíkingum aftur inn í leikinn í upphafi fjórða leikhluta þar sem hann skoraði fjóra þrista í röð og minnkaði muninn í 85-83 en þá skelltu heimamenn í gírinn og kláruðu leikinn að lokum nokkuð örugglega, 108-100.

Nánari umfjöllun og viðtöl á Vísi síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira