Íslenski boltinn

Tveir fimm­tán ára með þrjú fyrir KR | Adam Ægir skoraði strax fyrir Val

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Rafn Pálmason varð í kvöld yngsti leikmaður efstu deildar frá upphafi þegar hann kom inná í leik KR og ÍA.
Alexander Rafn Pálmason varð í kvöld yngsti leikmaður efstu deildar frá upphafi þegar hann kom inná í leik KR og ÍA. Heimasíða KR

Alexander Rafn Pálmason, yngsti leikmaður í sögu efstu deildar karla í fótbolta hér á landi, gerði sér lítið fyrir og skoraði tvennu þegar KR flaug áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins í dag. Valsmenn komust einnig áfram, með sigri gegn Grindavík.

Alexander, sem var aðeins 14 ára þegar hann spilaði fyrsta deildarleik sinn í fyrra, fagnaði 15 ára afmæli í síðustu viku. Hann skoraði svo tvö mörk og átti stóran þátt í sjálfsmarki gestanna í Vesturbænum í dag, í 11-0 risasigri KR gegn 5. deildarliði KÁ úr Hafnarfirði. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

Alexander var ekki eini táningurinn sem skoraði fyrir KR í dag því hinn 15 ára gamli Sigurður Breki Kárason, sem á mánudaginn varð yngsti byrjunarliðsmaður í sögu efstu deildar, skoraði eitt mark. 

Hinn 18 ára gamli Róbert Elís Hlynsson, sem kom frá ÍR í vetur, gerði tvö mörk með skömmu millibili í seinni hálfleiknum. Fyrirliðinn Aron Sigurðarson skoraði einnig tvö mörk og þeir Guðmundur Andri Tryggvason, Luke Rae og Eiður Gauti Sæbjörnsson eitt mark hver.

Adam Ægir skoraði í fyrsta leik

Við Nettóhöllina í Reykjanesbæ unnu Valsmenn 3-1 sigur gegn Grindavík, eftir að staðan hafði verið jöfn, 1-1, í hálfleik. 

Norðmennirnir Marius Lundemo og Markus Nakkim, sem Valur fékk í vetur, skoruðu báðir fyrir Val í dag auk Adams Ægis Pálssonar sem er mættur aftur á Hlíðarenda frá Ítalíu og strax farinn að láta til sín taka. Adam Árni Róbertsson skoraði mark Lengjudeildarliðs Grindavíkur sem nú er fallið úr leik.

Upplýsingar um markaskorara eru af Fótbolta.net. Af myndbandi má þó sjá að eitt marka KÁ, sem talið var mark Alexanders Rafns Pálmasonar, var sjálfsmark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×