Leik lokið: Kefla­vík - Njarð­vík 73-76 | Njarðvíkur-sigur í spennutrylli

Siggeir Ævarsson skrifar
Hulda María Agnarsdóttir og félagar í Njarðvík eru að spila vel.
Hulda María Agnarsdóttir og félagar í Njarðvík eru að spila vel. Vísir/Ernir

Keflavík tók á móti Njarðvík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar kvenna í kvöld en Keflavík hafði harma að hefna eftir að hafa tapað í Njarðvík í síðasta leik.

Heimakonur í Keflavík hófu leikinn af miklum krafti en krafturinn var ekki alltaf að skila þeim körfum heldur þvert á móti voru þær að brenna af góðum færum meðan Njarðvíkingar voru yfirvegaðir gegn stífri pressu Keflvíkinga og leiddu eftir fyrsta leikhluta 21-27.

Keflvíkingar héldu áfram að spila fast og af miklum ákafa og það fór að loks að skila þeim árangri eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Leikurinn var afar fast leikinn og dómararnir voru ekkert að stressa sig of mikið á því að blása í flauturnar sem hentaði Keflvíkingum sennilega ögn betur í baráttu sinni við hávaxið lið Njarðvíkur.

Síðasta karfa hálfleiksins var þristur frá Jasmine Dickey sem þýddi að aðeins munaði einu stigi á liðunum í hálfleik, staðan 44-45.

Harkan hélt áfram í seinni hálfleik en stíf pressuvörn Keflvíkinga útheimti gríðarlega orku og ekki hjálpaði til hvað þær þurftu að djöflast mikið í miðherjum Njarðvíkur en Jasmine Dickey og Sara Rún Hinriksdóttir voru báðar komnar með fjórar villur áður en þriðji leikhluti var á enda. Njarðvík leiddi með fimm stigum á þeim tímapunkti, 54-59.

Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að taka sigurinn í kvöld en náðu aldrei að brúa bilið fullkomlega. Munaði þar eflaust töluvert um að þær Sara Rún Hinriksdóttir og Jasmine Dickey gátu ekki beitt sér af fullum krafti í vörninni en þær voru báðar á fjórum villum allan fjórða leikhlutann.

Lokakaflinn var gríðarlega spennandi en svo fór að Njarðvíkingar lönduðu þriggja stiga sigri og eru komnar í 2-0 í einvíginu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira