Upp­gjör: FH-Stjarnan 2-1 | FH-konur á­fram á flugi

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Birna Kristín Björnsdóttir skoraði frábær mark fyrir FH liðið í kvöld.
Birna Kristín Björnsdóttir skoraði frábær mark fyrir FH liðið í kvöld. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

FH lagði Stjörnuna 2-1 í Kaplakrika í kvöld í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna. Með sigrinum jafnar FH bæði Íslandsmeistara Breiðablik og Þrótt Reykjavík að stigum á toppi deildarinnar – öll liðin eru nú með 13 stig.

Gestirnir úr Garðabæ komust yfir á 30. Mínútu þegar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir refsaði fyrir varnarmistök og skoraði frábært mark eftir að hafa komist framhjá Örnu Eiríksdóttur.

FH átti erfitt uppdráttar sóknarlega í fyrri hálfleik með vindinn í fanginu en náðu að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik.

Á 53. mínútu jafnaði Birna Kristín Björnsdóttir með frábæru langskoti í þaknetið. Áfram héldu FH stelpurnar að sækja og á 60. mínútu skorar Maya Lauren Hansen annað mark FH eftir frábæra stoðsendingu Thelmu Karenar Pálmadóttir.

Jessica Ayers átti skot fyrir utan teig á 78. Mínútu sem Aldís Guðlaugsdóttir varði glæsilega, og þrátt fyrir að bæði lið hefðu tækifæri undir lokin þá urðu mörkin ekki fleiri.

Atvik leiksins

Ekkert sérstakt atriði sem stóð upp úr. Hefðu sjálfsagt geta verið fleiri mörk en markmenn beggja liða sáu til þess að leikurinn endaði 2-1.

Stjörnur og skúrkar

Aldís Guðlaugsdóttir átti stórleik í því að tryggja sínu liði sigurinn með glæsilegum vörslum. Arna Eiríksdóttir var einn af bestu leikmönnum vallarins þrátt fyrir mistök í fyrsta markinu. Hún sýndi mikinn karakter og leiðtogahæfileika og hefur verið lykilmaður í því að FH sé ekki búnar að fá nema tvo mörk á sig eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Stemning og umgjörð

Góð stemning á leiknum miðað við gula viðvörun hérna í Kaplakrika. Krakkarnir héldu uppi stuðinu á trommunum og söng í stúkunni. Blaðamannastúkan var hlý og þægileg og þjónustan í Krikanum til fyrirmyndar.

Dómarar

Þorfinnur Gústaf Þorfinnsson, Ásgeir Viktorsson og Tijana Krstic dæmdu leikinn hér í dag. Erfiðar aðstæður hér í kvöld en leikurinn þokkalega dæmdur svona í heildina litið.

Guðni Eiríksson er þjálfari FH.Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

„Löngunin í að vinna leiki er að skila okkur ansi langt“

Enn einn sigur FH í deildinni og segir Guðni Eiríksson þjálfari FH að stelpurnar séu með viljastyrkinn til þess að vinna leiki.

„Liðið er að berjast fyrir hvor aðra og eru að sýna spirit með FH hjarta. Löngunin í að vinna leiki er að skila okkur ansi langt,“ sagði Guðni.

„Ég óttaðist að leikurinn myndi litast af veðuraðstæðum og hann gerði það. Fyrri hálfleikurinn var erfiður með vindinn í andlitið. Ég hefði verið feginn að fara inn í hálfleik með hreina stöðu 0-0, en við fáum svo á okkur mark en Aldís Guðlaugsdóttir sá til þess að við urðum ekki tveimur mörkum undir,“ sagði Guðni.

„Í seinni hálfleik vissum við að við myndum fá vindinn í bakið og vissum að við gætum þrýst þeim niður. Þegar við gerum jöfnunarmarkið þá er nóg eftir og okkur leið vel. Það var flott svo að fá annað markið og við reyndum að sækja þriðja markið en ekki halda stöðunni,“ sagði Guðni.

Enginn varamarkvörður hefur verið á skýrslu hjá FH í deildinni það sem af er tímabili, þrátt fyrir að pláss sé fyrir hendi.

„Fyrir það fyrsta þá er markmannstaðan á Íslandi ekki nógu góð. Það vantar flottar íslenskar stelpur í markið, þetta er staða sem við, knattspyrnuhreyfingin og félögin þurfum að huga betur að,“ sagði Guðni.

„Við erum bara í basli með að finna markmenn og við erum með unga stelpu sem er í tíunda bekk og hún þróast ekki með því að sitja á bekk hjá okkur og fær hún því að spila allar mínútur í ÍH. Þar verður hún betri í fótbolta og þetta er fórnarkostnaðurinn. Við erum að reyna að gera ungan leikmann efnilegri og betri og hún verður það á fótboltavellinum en ekki á bekknum,“ sagði Guðni.

Aldís: Við erum bara eins og múr

Aldís Guðlaugsdóttir átti frábæran leik í marki FH í kvöld og átti stóran þátt í sigrinum. Hún var sérstaklega ánægð með varnarlínuna fyrir framan sig og hrósaði varnarleik liðsins.

„Varnarleikurinn var upp á 10 fyrir utan markið sem við fengum á okkur sem var smá varnarklúður. Þegar maður er með svona vel drillaða varnarmenn fyrir framan sig sem loka hárrétt fyrir og eins og ég vil að þær loki þá erum við bara eins og múr,“ sagði Aldís.

Arna Eiríksdóttir fagnar með liðsfélögum sínum.vísir/Guðmundur

Arna Eiríksdóttir: Ekki erfitt að fá ekki á sig mörk með Aldísi fyrir aftan okkur

Varnarlína FH er búin að vera þétt það sem af er tímabils og Arna Eiríksdóttir líklega einn besti varnarmaður deildarinnar þessa stundina er ánægð með sigurinn í kvöld.

„Þetta var flottur baráttu sigur í virkilega erfiðum aðstæðum. Það var frábært að ná að loka þessu. Við erum fyrst og fremst samheldin hópur og erum tilbúnar að berjast fyrir hvor aðra og með því fylgir sjálfstraustið,” sagði Arna.

„Mér finnst varnarlínan hjá okkur vera að smella vel saman. Við erum að spila vel og færslurnar og pressurnar hjá efstu mönnum búin að vera frábærar. Það er gott að vera með Aldísi Guðlaugsdóttur fyrir aftan okkur sem ver allt sem kemur næstum því á markið,” sagði Arna.

„Við erum búnar að vera vinna í sömu hlutum í allan vetur og þrátt fyrir meiðsli í vörninni þá koma aðrir leikmenn inn og vita alveg í hvaða hlutverk þær eru að koma inn í,” sagði Arna.

Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar

Jóhannes Karl: Erfiður markvörður FH sá við okkur

„Það vantaði að skora fleiri mörk og við vorum að fá færi til þess en erfiður markmaður FH sá við okkur,” sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Heilt yfir var ég ekki ósáttur með frammistöðuna. Við vorum ekki að gefa mörg færi á okkur. Fyrra markið þeirra er skot utan af velli sem við hreinlega hefðum átt að taka. Þær fá svo annað mark eftir skyndisókn en við náðum að loka heilt yfir vel á það í leiknum. Mér finnst færin vera okkar megin betri og við hefðum átt að klára þau,” sagði Jóhannes.

„Þetta er bara þannig í fótbolta að úrslitin falla á einu marki og það er nóg að eitt mark skilji að,” sagði Jóhannes.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira