Lífið

Virki­lega sláandi lífs­reynsla að koma til Grinda­víkur

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Vigdís Hrefna markað spor á sviði Þjóðleikhússins í gegnum tíðina og stígur nú inn í kvikmyndaheiminn af fullum krafti.
Vigdís Hrefna markað spor á sviði Þjóðleikhússins í gegnum tíðina og stígur nú inn í kvikmyndaheiminn af fullum krafti. Vísir/Anton Brink

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega stolt af myndinni – og þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri; að leika þessa flóknu konu sem fær þennan stóra boga. Það er ekki á hverjum degi á Íslandi sem það kemur út kvikmynd sem er þroskasaga einnar konu, skrifuð af konu og leikstýrt af konu“ segir Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona sem fer með burðarhlutverkið í íslensku stórmyndinni Eldarnir sem frumsýnd verður þann 11.september næstkomandi.

Sögur sem þurfa að heyrast

Síðan Vigdís útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2002 hefur hún komið víða við í leiklistinni og tekið þátt í fjölda verkefna, einkum á sviði Þjóðleikhússins og má þar nefna Framúrskarandi vinkona, Húsið, Ronja ræningjadóttir, Sjálfstætt fólk, Macbeth, Vesalingarnir, Súper, Hreinsun, Lér konungur, Hænuungarnir, Oliver og Mýrarljós. Hún lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar og í Höllu og Kára og Grettissögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir leik í Múttu Courage, og var tilnefnd fyrir Framúrskarandi vinkonu, Súper, Húsið og Eldraunina. Hún hefur farið með aukahlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við Útilega, Afturelding, Nokkur augnablik um nótt sem hún hlaut tilnefningu til Eddunnar fyrir, Agnes Joy og einnig í bresku þáttaröðinni King and Conqueror, en hlutverk Önnu Einarsdóttur í Eldunum er hennar fyrsta stóra hlutverk á hvíta tjaldinu.

„Ég elska leikhúsið og það var alltaf minn draumur að vinna þar og ég hef verið mjög heppin að fá að glíma við ólík hlutverk í fjölbreyttum verkum á sviðinu. Mig hafði lengi langað að vinna meira í sjónvarpi og kvikmyndum en þegar tækifærin hafa boðist þá hefur oft eitthvað komið upp á, til dæmis barneignir eða að ég hafi verið í miðju verkefni í leikhúsinu. En þetta síðasta eina og hálfa ár hef ég unnið í tveimur sjónvarpsseríum: Útilegu, King and Conqueror og svo Eldunum og það er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt og gaman, þannig að ég vona svo innilega að þetta sé bara byrjunin.

„Við þurfum að segja okkar eigin sögur,“ segir Vigdís.Vísir/Anton Brink

Það hefur auðvitað margt breyst í þessum íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransa síðan ég útskrifaðist úr leiklistarnámi fyrir 23 árum, þá sérstaklega hlutur kvenna. Við þurfum að geta búið til íslenskt efni – sagt okkar sögur, sem eru sprottnar upp úr okkar veruleika. Til að við þroskumst og þróumst sem samfélag þurfum við að horfast í augu við galla okkar og bresti. Það er auðvitað fyrst og fremst pólitísk ákvörðun; að veita fjárhagslegan stuðning svo það sé hægt að skapa þessi menningarverðmæti. Og það að konur séu komnar með sterkari rödd í fleiri leikstjórum, handritshöfundum og framleiðendum er grundvallaratriði.“

Marglaga hamfarasaga

Sem fyrr segir er kvikmyndin Eldarnir væntanleg í bíó þann 11.september næstkomandi en myndin byggir á skáldsögunni Eldarnir - Ástin og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur sem kom út 2020 og sló rækilega í gegn. Leikstjóri myndarinnar er Ugla Hauksdóttir sem stígur hér sín fyrstu skref í kvikmyndaleikstjórn í fullri lengd, eftir að hafa áður leikstýrt þáttum í sjónvarpsseríum bæði hér heima og erlendis við góðan orðstír.

Eldarnir fjallar um Önnu Arnardóttur einn helsta eldfjallafræðing landsins sem stendur frammi fyrir tvennum hamförum: eldgosi sem ógnar öryggi höfuðborgarbúa og ástarsambandi sem gæti eyðilagt hjónaband hennar.

Vigdís Hrefna fer með hlutverk Önnu en Jóhann G. Jóhannsson leikur Kristin eiginmann Önnu og danski leikarinn Pilou Asbæk leikur ljósmyndarann Thomas Adler sem Anna verður ástfangin af. Með önnur hlutverk fara Ingar E. Sigurðsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, María Heba Þorkelsdóttir og Þór Tulinius.

„Ég las bókina áður en ég fór í prufu fyrir myndina og var mjög hrifinn af henni. Fyrir mig sem leikkonu var það auðvitað ótrúlega mikil gjöf að hafa allan þennan efnivið, heila bók, til að styðjast við þegar kom að því að skapa karakterinn og skilja hana,“ segir Vigdís.

Í upphafi myndarinnar kynnast áhorfendur konu sem er að vissu leyti aftengd sjálfri sér og eigin tilfinningum.

„Ég held að það séu margir sem geta tengt við þetta, að missa þessa tilfinningalegu tengingu í lífinu, hvort sem það er í samböndum, vinnu eða öðru. Það er svo mikið áreiti í lífinu og það er auðvelt að festast í rútínunni. Vakna upp einn daginn og vera kannski ekkert viss um að maður vilji vera þar sem maður er.“

Eldunum hefur verið lýst sem hamfarasögu – og af góðri ástæðu.

„Þetta er saga konu sem gengur í gegnum persónulegar hamfarir, og á sama tíma eru hrikalegar náttúruhamfarir að eiga sér stað. Fyrir mér er þetta fyrst og fremst þroskasaga þessarar konu, hennar Önnu – hvernig hún tengist aftur við sjálfa sig. En þetta er líka ástarsaga; enda er ástin hamfarir og hún breytir þér. Þetta er saga konu sem er aftengd sínu tilfinningalífi og sínu hjónabandi og svo kynnist hún manni sem andstætt við hana, er hrifnæmur og hvatvís og hann sér í gegnum brynjuna sem hún er búin að gera sér.

Þetta er ekki bara saga um ást á milli manns og konu, þetta er líka saga um móðurástina, ást til jarðarinnar og frumaflanna og ástina sem við berum til okkar sjálfra. Það er auðvitað markmiðið með allri listsköpun að ýta við fólki, hreyfa við áhorfendum. Maður vill velta upp spurningum - án þess að gefa svör. Ég vona að áhorfendur fari hugsi út úr bíósalnum.“

Anna í Eldunum er fyrsta burðarhlutverk Vigdísar Hrefnu á hvíta tjaldinu.Vísir/Anton Brink

Sex vikna tökumaraþon

Sem fyrr segir er það Ugla Hauksdóttir sem leikstýrir Eldunum.

„Það var dásamlegt að vinna með henni Uglu, hún er bæði svo næm og flink. Það leið tæpt ár á milli þess að ég fékk hlutverkið og þar til tökur hófust og við tvær fengum þess vegna góðan tíma til að stilla okkur saman, spjalla og kynnast, sem er auðvitað algjör lúxus. Þannig að á milli okkar var algjört traust sem er mjög dýrmætt í svona vinnu. Svo var ég ótrúlega heppin með meðleikara eins og Pilou Asbæk og Jóa G, báðir ekki bara mjög reyndir kvikmyndaleikarar heldur líka mjög gefandi leikarar. Fyrir mig, svona óreynda í risarullu, var það ómetanlegt. Við Pilou þurftum að stökka beint í mjög erfiðar og krefjandi senur í fyrstu vikunni, þannig að við fórum meðvitað strax að tengja, fórum á massa trúnó, hlógum mikið og kynntumst hratt. Hann er algjört yndi.“

 Myndin var tekin upp á stórbrotnum og kunnuglegum stöðum á Reykjanesskaga, þar á meðal við Reykjanesvita, Kleifarvatn og Fagradalsfjall.

„Þetta var algjört maraþon í sex vikur en það var valinn maður í hverju rúmi og ótrúlega vel haldið utan um mann – og svo spillti heldur ekki fyrir að það var brakandi blíða allan tímann, sem er nú ekki sjálfsagt hér á landi!“

Jarðfræði og fróðleikur um eldfjöll skipa veigamikinn sess í Eldunum. Aðspurð segist Vigdís sjálf nú ekki vera nein sérstök áhugamanneskja um jarðfræði.

„Þegar ég var í MR á sínum tíma þá var ég svo heppin að vera með alveg frábæran jarðfræðikennara, hana Guðfinnu Ragnarsdóttur og henni tókst að miðla efninu til manns á svo skemmtilegan hátt þannig að maður hlakkaði alltaf til að mæta í tíma til hennar. En ég get nú ekki sagt að ég hafi haldið áhuganum við, því miður.

Þannig að þegar ég var að undirbúa mig fyrir hlutverkið þá keypti ég nokkrar jarðfræðibækur og sökkti mér ofan í þær og síðan eftir að hafa unnið þessa mynd þá finnst mér eiginlega hálfgalið að það sé ekki lagt meira upp úr kennslu í jarðfræði í grunnskólum, að börnunum okkar sé ekki kennt meira um það hvernig landið okkar myndaðist. Við búum á þessu landi, þessari eldfjallaeyju, þar sem náttúran er svo nátengd okkur og er svo dugleg að minna á sig, og jarðfræðin er þar af leiðandi svo ótrúlega aðgengileg. Í raun ættu öll börn á Íslandi að vera jarðfræði á heilanum!“

Anna, persóna Vigdísar í myndinni, dregur að vissu leyti fram tengsl jarðhræringa og þjóðarsálarinnar. Eldarnir fjalla um atburði sem gætu svo sannarlega átt sér stað. Þremur dögum eftir að leikstjórinn Ugla Hauksdóttir ræddi við Sigríði Hagalín Björnsdóttur, sem skrifaði skáldsöguna sem myndin er byggð á, um gerð kvikmyndar eftir bókinni, hófst fyrsta gosið í 800 ár á Reykjanesskaganum.

Þegar tökur á Eldunum hófust var vart liðið ár frá eldgosinu við Sundhnúka sem setti líf Grindvíkinga úr skorðum og olli ólýsanlegu tjóni. Leikarar og tökulið myndarinnar heimsóttu Grindavík á meðan tökur stóðu yfir.

„Og það var virkilega sláandi lífsreynsla; yfirgefinn bær og allstaðar voru sprungur í götunum. Þá fékk maður þessa nálægð við þennan harmleik og þetta sat í manni lengi á eftir. En ég held að það hafi tekist mjög vel upp í myndinni að sýna þessa raunverulegu náttúruógn við sem búum við hér á landi,“ segir Vigdís.

Leikkonan nýtur þess að brjóta upp tilveruna með nýjum áskorunum.Vísir/Anton Brink

Heimili er afstætt hugtak

Vigdís og eiginmaður hennar Örn Úlfar Höskuldsson húsasmíðameistari eiga saman fimm börn. Vigdís er sem stendur í ársleyfi frá störfum sínum í Þjóðleikhúsinu en það stendur mikið til hjá fjölskyldunni í haust; þau hafa sett húsið sitt á Bergstaðastræti í leigu og ætla að flytja tímabundið til Bretlands.

Hvað tekur við eftir að fjölskyldan er komin út á ennþá eftir að ráðast en Vigdís er hvergi smeyk við að stökkva út í óvissuna.

„Bassi, maðurinn minn, er smiður þannig að við höfum litlar áhyggjur af atvinnumöguleikum hjá honum en hvað mig varðar þá sjáum við hvað setur; ég hef til dæmis verið að skrifa handrit að sjónvarpsseríu með Silju Hauksdóttur uppúr bók Jóns Atla Jónssonar, Andnauð. Það er búið að vera hrikalega skemmtilegt en ég hef aldrei skrifað neitt áður, svo mögulega er það upphaf að fleiri þannig verkefnum. Kannski fæ ég einhver bíóverkefni í Bretlandi en kannski enda ég á því að vinna bara í bókabúð, það væri líka gaman.“ segir Vigdís hlæjandi.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við flytjum erlendis með börnin okkar í lengri eða skemmri tíma; við höfum búið margsinnis bæði í Frakklandi, Bretlandi og Skotlandi og kunnum mjög vel við okkur þar. Þetta hugtak: heimili – það er svo afstætt í mínum huga. „Heima“ getur verið svo víða og það þarf ekki að vera bundið við einhvern ákveðinn stað. Ef að ég er með krakkana mína hjá mér og manninn minn, blóm í vasa, þá er ég góð. Mér finnst það gott, og eiginlega nauðsynlegt, að brjóta upp tilveruna; fara í annað umhverfi, kynnast nýju fólki, breyta um takt og upplifa aðra menningu og lifnaðarhætti – og læra að meta ennþá betur það sem maður hefur hérna á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.