Leik lokið: Víkingur - FHL 4-0 | Gulltryggðu sig inn í efri hlutann með stór­sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingur - Valur Besta Deild Kvenna Haust 2025
Víkingur - Valur Besta Deild Kvenna Haust 2025 vísir/Diego

Víkingur gulltryggði sæti sitt í efri hluta Bestu deildar kvenna með 4-0 sigri gegn FHL í lokaumferðinni. Shaina Ashouri átti stórleik og kom að öllum mörkum.

Víkingur fór með sigrinum upp í 5. sæti deildarinnar en efstu sex liðin ná inn í efri hlutann. FHL er fallið og situr í neðsta sæti af fjórum liðum í neðri hlutanum.

Víkingur var frá upphafi betri aðilinn og hafði ógnað mikið áður en fyrsta markið skilaði sér eftir fimmtán mínútur.

Vel útfært atriði af æfingasvæðinu skilaði sér þar, Ashley Jordan Clark tók stutta hornspyrnu á Shainu Ashouri, fékk boltann aftur og skaut flottu skoti yfir markmanninn.

FHL missti síðan leikmann af velli skömmu síðar þegar Candela Domingo togaði algjörlega tilefnislaust í hár Freyju Stefánsdóttur. Réttilega gefið beint rautt spjald.

Shaina Ashouri lagði svo annað mark upp, með hárri fyrirgjöf á Áslaugu Dóru Sigurbjörnsdóttur sem stýrði boltanum í netið.

Shaina skoraði svo þriðja markið sjálf upp úr skyndisókn eftir fyrstu hornspyrnu FHL í leiknum.

Víkingar sýndu alls ekki sömu yfirburði í seinni hálfleik, leikurinn jafnaðist út og virkaði ekki eins og FHL væri manni færri.

Þrátt fyrir slakan sóknarleik gerðu Víkingar vel varnarlega og héldu markinu hreinu.

Heimakonur bættu síðan fjórða markinu við í uppbótartíma, eftir mjög hægar mínútur þar á undan. Ashley Jordan Clark setti þar sitt annað mark með góðu skoti við vítateigslínuna.

Atvik leiksins

Rauða spjaldið sem Candela Domingo fékk hafði óneitanlega mikil áhrif á FHL. Gjörsamlega glórulaust rautt spjald fyrir að rífa í hár. Kannski ætlaði hún sér bara að toga í treyju Freyju en hættan er til staðar þegar sítt hár er annars vegar. Heimskuleg ákvörðun og gerði liðinu enga greiða.

Stjörnur og skúrkar

Shaina Ashouri stórkostleg, eins og hún hefur alla jafnan verið síðan hún sneri aftur til Víkings. Með tvær stoðsendingar og mark í fyrri hálfleik. Stýrði miðjunni.

Ashley Jordan Clark litlu síðri, með mark og stoðsendingu í fyrri hálfleik. Frábækr á vinstri vængnum.

Dómarar

Lítið að gera hjá Ásmuni Þór Sveinssyni og hans teymi. Aðstoðardómarinn Kári Mímisson einstaklega öruggur í sínum aðgerðum, Eydís Ragna Einarsdóttir sömuleiðis. Varadómarinn Bríet Bragadóttir var með opin eyru og heyrði kvartið í Björgvini Karl, þjálfara FHL, eftir þriðja mark Víkings. Björgvin var verðlaunaður með gulu spjaldi.

Stemning og umgjörð

Nokkuð vel mætt á heimavöll hamingjunnar og stemningin fín, sláarkeppni í hálfleik og sigurvegarinn vann bragðaref.

Augljóslega fáir í gestastúkunni enda löng leið að austan, en þó alveg einhverjir sem studdu fallið lið FHL.

Sólin skein en hitinn var ekki mjög hár. Virtist fara vel um alla samt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira