Innlent

Fundar með Krist­rúnu, Þor­gerði og þing­mönnum á Ís­landi í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mark Rutte aðalframkvæmdastjóri NATO verður í heimsókn á Íslandi í dag.
Mark Rutte aðalframkvæmdastjóri NATO verður í heimsókn á Íslandi í dag. AP/Nicolas Tuca

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, heimsækir Ísland í dag. Hann mun eiga fundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og með fulltrúum utanríkismálanefndar og Íslandsdeildar NATO þingsins.

Þá mun Rutte taka þátt í fjölmiðlaviðburði ásamt forsætisráðherra síðdegis í dag að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá NATO vegna heimsóknarinnar og verður fjölmiðlafundurinn í beinu streymi á heimasíðu bandalagsins.

Þetta er fyrsta heimsókn Mark Rutte til Íslands eftir að hann tók við stöðu framkvæmdastjóra NATO af Jens Stoltenberg í október 2024. Í heimsókninni mun Rutte meðal annars kynna sér aðstæður og starfsemi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 

Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu mun Rutte funda með utanríkisráðherra á öryggissvæðinu og þá næst með forsætisráðherra í Reykjavík. Að því loknu mun hann heimsækja Alþingi þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti þingsins, tekur á móti honum og hann hittir þingmenn sem sitja í utanríkismálanefnd Alþingis og íslandsdeild NATO þingsins.

Fréttastofa mun fylgjast með heimsókninni og segja af henni fréttir á Vísi, Bylgjunni og í kvöldfréttum Sýnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×