Viðskipti erlent

Reyna fjand­sam­lega yfir­töku á Warner Bros.

Samúel Karl Ólason skrifar
Eigendur Paramount Skydance vilja fara framhjá stjórn Warner Bros. Discovery og hófu í dag tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku.
Eigendur Paramount Skydance vilja fara framhjá stjórn Warner Bros. Discovery og hófu í dag tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku. AP/Jae C. Hong

Forsvarsmenn Paramount Skydance hófu í dag fjandsamlega yfirtökutilraun á Warner Bros. Discovery. Það er eftir að stjórn síðarnefnda félagsins neitaði að selja það til Paramount og samþykktu frekar 72 milljarða dala tilboð frá Netflix.

Fjandsamleg yfirtaka felur í einföldu máli sagt í sér að Paramount vilji fara fram hjá stjórn WBD og kaupa hlutabréf í félaginu beint af hluthöfum. Þannig gæti Paramount náð meirihluta í WBD og skipað sitt fólk í nýja stjórn.

Kauptilboð Netflix hljóðar upp á 72 milljarða dala (um 9,2 billjónir króna) eða um 27,75 dali á hvern hlut, fyrir kvikmyndatökuver WBD og HBO Max streymisveituna, auk stærðarinnar safns kvikmynda og þátta.

Sjónvarpsstöðvar WBD eins og CNN, Discovery, TNT og fleiri yrðu reknar áfram í sér félagi.

Yfirtökutilboð Paramount hljóðar upp á 30 dali á hvern hlut, samkvæmt frétt Wall Street Journal, fyrir allt fyrirtækið. David Ellison, forstjóri Paramount segir að með þessu muni hluthafar hagnast meira en annars og að Paramount eigi mun meiri séns á því að fá kaupin samþykkt af samkeppnisyfirvöldum í Bandaríkjunum og víðar.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að kaup Netflix á stórum hluta WBD gæti orðið „vandamál“. Vísaði hann þá í sterka samkeppnisstöðu fyrirtækjanna beggja.

Forsvarsmenn Paramount Skydance telja sig í bestri stöðu til að fá samrunann samþykktan en fyrirtækið var nýlega myndað úr samruna fyrirtækjanna Paramount og Skydance, eftir að Paramount greiddi Trump bætur vegna viðtals fréttaskýringarþáttarins 60 mínútna við Harris í aðdraganda kosninganna.

Þá er Paramount í verri markaðsstöðu en bæði Netflix og WBD.

Sjá einnig: Paramount, Comcast og Netflix vilja kaupa Warner

Í viðtali við CNBC í dag sagði Ellison að hann ætti í góðu sambandi við Trump og að hann teldi að forsetinn hefði trú á samkeppni. Þá sagðist hann hafa rætt málið við Trump.

Í frétt CNBC er haft eftir Ellison að þrjátíu dala tilboðið sé það sama og hafði verið sent til stjórnar WBD og stjórnin hafnaði í síðustu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×