Viðskipti innlent

Útrásin eykur álagið

Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME
Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME

Starfsemi Fjármálaeftirlitsins (FME) erlendis hefur stóraukist á innan við tveimur árum samfara útrás íslenskra fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtækin starfa nú í tuttugu og einu landi en fyrir aðeins tveimur árum voru löndin tólf. Starfsemin fer ýmist fram í útibúum, dóttur­félögum eða á umboðsskrifstofum. FME fylgist með þessari starfsemi.

„Þegar íslenskt fjármála­fyrirtæki stofnar útibú erlendis, hvílir eftirlitsskyldan á heimalandi fyrirtækisins en þegar um er að ræða dótturfélög eða umboðsskrifstofu, fylgist FME með í gegnum erlendar eftirlits­stofnanir," segir Már Másson hjá FME. Hann segir að þetta auki töluvert á álagið hjá FME. Því sé mætt með fleiri starfsmönnum og aukinni skilvirkni. „Útibúavæðingin er það sem mestu breytir í okkar starfi," segir Már og bætir því við að að jafnaði sé gert ráð fyrir einum tíunda úr stöðugildi fyrir hvert íslenskt útibú sem opnað er erlendis hvort heldur í EES-ríki eða utan. „Við gerum sérstaka samstarfssamninga við eftirlitsstofnanir í ríkjum utan EES, líkt og í Kína, þar sem Glitnir hefur hafið starfsemi. Í þessum samningum er meðal annars kveðið á um að stofnanir deili upplýsingum." Már segir að FME stefni að því að fjölga stöðugildum um yfir tíu fyrir lok næsta árs, meðal annars vegna útrásarinnar. Auknar fjárheimildir til FME fóðri það. Þá berist FME árlega um fjögur þúsund skýrslur frá eftirlitsskyldum aðilum. Verið sé að þróa rafrænt kerfi til að vinna úr þeim, en í því felist meðal annars sjálfvirk vöktun sem geri FME kleift að greina frávik um leið og upplýsingarnar berast. „Það eykur skilvirknina umtalsvert," segir Már Másson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×