Skoðun

Breytt greiðsluþátttaka fólks fyrir lyf er réttlætismál

Guðbjartur Hannesson skrifar
Frumvarp sem fjallar um breytingar á greiðslum fólks fyrir lyf liggur nú fyrir Alþingi til umfjöllunar. Gangi þetta eftir er um tímamót að ræða. Þak verður sett á heildarútgjöld fólks vegna lyfja, en eins og málum er háttað nú geta þeir sem þurfa mikið á lyfjum að halda þurft að greiða langt yfir hundrað þúsund krónur fyrir lyf á ári og í verstu tilfellum jafnvel fleiri hundruð þúsunda.

Mismunun eftir sjúkdómum eyttBreytingarnar hafa þann tilgang helstan að verja sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði en gildandi lög gera það ekki. Ég legg áherslu á að breytingunum er ekki ætlað að spara útgjöld ríkissjóðs heldur verður kostnaður hans vegna niðurgreiðslna á lyfjum óbreyttur. Meginmarkmið breytinganna er að taka upp kerfi sem er einfaldara og réttlátara en nú gildir, kerfi sem eykur jöfnuð, mismunar ekki sjúklingum eftir því hvaða sjúkdóma þeir glíma við og ver þá sem þurfa mest á lyfjum að halda fyrir háum kostnaði. Þeir sem lítið nota af lyfjum munu í nýju kerfi þurfa að borga meira en áður. Hinir sem þurfa lyf að staðaldri eða nota mjög dýr lyf greiða minna en þeir hafa gert hingað til eins og nánar er lýst hér á eftir.

Hvað mun breytast?Í nýju kerfi mun fólk almennt greiða að fullu fyrir lyf sem keypt eru á 12 mánaða tímabili fari samanlagður kostnaður ekki yfir 22.500 krónur. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og atvinnuleitendum verður hámarkið lægra, eða um 15.000 krónur. Kaupi fólk lyf í apóteki eftir að þessum hámarksfjárhæðum er náð greiðir það einungis 15% af verði þeirra á móti 85% niðurgreiðslu sjúkratrygginga og í næsta afsláttarþrepi greiðir fólk aðeins 7,5% af verði lyfs. Þegar hámarkskostnaði er náð, sem er tæp 65.000 kr. almennt en um 45.000 kr. hjá lífeyrisþegum, börnum og atvinnuleitendum, fær fólk lyfjaskírteini og greiðir þá ekkert fyrir þau lyf sem það þarf til viðbótar á umræddu tímabili.

Ekki þarf að greiða fyrir S-merkt lyf og sýklalyf verða niðurgreiddFrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi er nokkuð breytt frá frumvarpi um sama efni sem lagt var fyrir þingið síðastliðið vor þar sem komið hefur verið til móts við ýmsar athugasemdir sem gerðar voru við fyrra frumvarp. Í fyrsta lagi hefur verið fallið frá því að taka svokölluð sjúkrahúslyf eða S-merkt lyf inn í greiðsluþátttökukerfið. Þetta þýðir að S-merktu lyfin verða áfram niðurgreidd að fullu og notendum því að kostnaðarlausu. S-merkt lyf eru m.a. sérhæfð, dýr og vandmeðfarin lyf gefin við sjúkdómum sem komin eru á alvarlegt stig, á borð við krabbamein, nýrnabilun, gigt o.fl.

Í núgildandi kerfi eru sýklalyf ekki niðurgreidd og þarf fólk því að greiða fyrir þau að fullu. Með breytingunum verða þau tekin inn í greiðsluþátttökukerfið og teljast því með þegar afslættir eru reiknaðir eins og lýst er hér að framan.

Aukinn afsláttur hjá barnafjölskyldumEins og fram hefur komið verður niðurgreiðsla á lyfjum meiri fyrir börn, lífeyrisþega og atvinnuleitendur en aðra. Auk þessa munu börn yngri en 18 ára sem eru í sömu fjölskyldu (með sama fjölskyldunúmer) teljast sem einn einstaklingur. Í þessu felst að ef t.d. tvö eða þrjú börn í sömu fjölskyldu þurfa öll á lyfjum að halda verða lyf þeirra niðurgreidd þegar samanlagður kostnaður nær 15.000 krónum. Af lyfjum umfram það þarf aðeins að greiða 15% í öðru afsláttarþrepi 7,5%. Fari samanlagður kostnaður vegna lyfja barnanna yfir 45.000 krónur er sótt um lyfjaskírteini fyrir þau og þar með verða lyf umfram þennan kostnað á viðmiðunartímabilinu niðurgreidd að fullu. Þetta fyrirkomulag samhliða því að sýklalyf verða tekin inn í greiðsluþátttökukerfið getur létt verulega á útgjöldum barnafjölskyldna.

Hvers vegna þarf að sækja um lyfjaskírteini?Ég tek það skýrt fram að allur þorri sjúklinga sem nær tilgreindum kostnaðarhámörkum mun fá lyfjaskírteini þegar um þau er sótt, hratt og örugglega, enda verður afgreiðsla þeirra rafræn. Það væri hægt að hafa útgáfu skírteina sjálfkrafa án þess að sækja um þau. Ákvæði um að sækja þurfi um skírteini á sér hins vegar góð og gild rök sem eru fyrst og fremst heilsufarsleg.

Fjöllyfjanotkun er þekkt vandamál hér á landi, þ.e. þegar sjúklingar nota mörg lyf samtímis með tilheyrandi hættu á óheppilegum milliverkunum. Oft leiðir skoðun í ljós að hægt er að fækka lyfjum hjá sjúklingum, jafnvel þannig að þeir hafi af því verulegan heilsufarslegan ávinning. Með ákvæði um að sækja þurfi um lyfjaskírteini gefst kostur á að fara yfir fjöllyfjanotkun hjá sjúklingum þegar um slíkt er að ræða, áður en lyfjaskírteini er gefið út. Þá verður skoðað í samráði við lækni viðkomandi hvort og þá hvaða breytingar megi gera með hagsmuni sjúklingsins að leiðarljósi. Fyrirsjáanlegur ávinningur af þessu fyrirkomulagi er því tvíþættur þar sem því fylgir heilsufarslegur ávinningur að draga úr fjöllyfjanotkun jafnframt því sem fjármunir sparast með minni lyfjanotkun.

Fyrsta skrefið í átt að réttlátara greiðslukerfi fyrir sjúklingaÞær breytingar á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði eru mikilvægt skref í átt að réttlátara kerfi en við búum við nú, því nú þurfa þeir sem síst skyldi að greiða mest fyrir lyf vegna sjúkdóma og vanheilsu. Þetta fyrirkomulag gildir um alla heilbrigðisþjónustu sem fólk þarf á að halda og þannig hefur það verið lengi. Þótt heilbrigðisþjónusta sé að mestu niðurgreidd þarf fólk engu að síður að greiða ýmis gjöld og kostnað. Þetta getur orðið þung byrði fyrir þá sem glíma við heilsuleysi og sjúkdóma þar sem ekkert hámark er á heildarútgjöld sjúklinga. Þessu þurfum við að breyta og búa til kerfi sem kveður á um hámarksgreiðslur, þannig að fólk þurfi aldrei að kikna undan þungum útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu. Fyrirhuguð breyting á greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar er fyrsta skrefið í þessa átt og er að mínu mati mikið réttlætismál.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×