Skoðun

Ingólfstorg-Kvosin, skipulag 2012

Það var við því að búast að umræður sköpuðust um tillögur í samkeppni sem er nýlega lokið um Ingólfstorg og Kvosina. Þetta er hjarta Reykjavíkur og staður sem flestum er annt um og láta sig varða.

Það er kannski ekki venjan að höfundar verðlaunatillögu blandi sér í eðlilegar umræður sem skapast um verk þeirra, en þegar fram koma ámæli frá kollega eins og „2007", „ofuráætlanir", „framandi byggingarstíll", „smágert hús borið ofurliði" þá hljótum við að standa upp og verja hendur okkar.

Umræða um skipulagsmál hefur einkennst af því að ýmsir hópar sameinast um að vera á móti flestum tilraunum til að breyta borginni. Umræðunni ber að fagna á meðan hún er málefnaleg. Það er aldrei hægt að gera svo öllum líki.

Það er grein Björns Stefáns Hallsonar arkitekts í Fbl. 6. júlí sl. sem hreyfir við okkur nú, þar sem okkur finnst vegið að okkar vinnu og fjölda manna sem komu að samkeppninni.

Reykjavíkurborg, ásamt lóðarhafa, ákveður að efna til alþjóðlegrar samkeppni um lausn á þessu viðkvæma svæði í hjarta Reykjavíkur. Haldin er tveggja þrepa samkeppni, þar sem fyrra þrep snýst um skipulag og heildarmynd og seinna þrep er framkvæmdarkeppni, þar sem kafað er nánar í útfærslur. Í samkeppnina berast 68 tillögur, víða að úr heiminum. Þetta er ein mesta þátttaka í samkeppni á Íslandi sem um getur. Úr þessum 68 tillögum voru valdar 5 til frekari vinnslu þar sem ein verður hlutskörpust að lokum. Dómnefndarmenn voru sjö talsins; 4 skipaðir af Reykjavíkurborg, 3 skipaðir af Arkitektafélagi Íslands. Ráðgjafar dómnefndar voru skipulagsstjórinn í Reykjavík, borgarminjavörður, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar Reykjavíkur og þekktur norskur arkitekt. Dómnefnd hélt 40 fundi á dómstíma. Okkur er til efs, að faglegar hafi verið staðið að samkeppni á Íslandi en hér var gert. Þegar upp er staðið liggja þúsundir vinnustunda að baki verkefninu.

Góður undirbúningur tryggir samt ekki góða lausn segir kannski einhver. Það er alveg rétt, það „tryggir" ekki hina fullkomnu lausn. En þá spyr maður sig; er hún til?

Tillögu okkar má skipta í nokkra þætti.

Ÿ Ingólfstorg: Við gerum ráð fyrir nýbyggingu „á grunni" Hótel Íslands sem brann árið 1944. Með því endursköpum við Veltusund (sem var „sund" fyrir 1944) og Vallarstræti, sem tengdi Austurvöll og Grjótaþorp frá upphafi byggðar í Reykjavík. Við minnkum ekki torgið svo nokkru nemi með nýbyggingunni, þar sem tillagan gerir ráð fyrir að skyndibitastaðirnir við norðanvert torgið verði fjarlægðir og nær torgið þá að Fálkahúsi, sem verður ein hlið torgsins.

Ÿ Byggð við Vallarstræti: Við gerum ráð fyrir að núverandi hús standi eins og þau gera nú, að öðru leyti en því að við fjarlægjum umbúðirnar um skemmtistaðinn Nasa. Við byggjum ný hús (reyndar hærri hús) á milli húsanna í anda eldri byggðar með verslun og þjónustu á öllum hæðum. Skemmtistaðinn endurbyggjum við í einni nýbyggingunni í sömu málum og hlutföllum og núverandi skemmtistaður og gerum jafnvel ráð fyrir að endurnýta gömlu innréttingarnar.

Ÿ Landsímahúsið: Landsímahúsið nýtum við sem hótel. Sögu Landsímans í húsinu er lokið og finna þarf því annað hlutverk. Auðvitað má deila um hvort hótel er rétta starfsemin en óneitanlega er það skemmtilegra en skrifstofuhús sem „deyr" kl. 17.00 á hverjum degi. Guðjón Samúelsson teiknaði elsta hluta hússins sem er ein höfuðprýði við Austurvöll. Á sínum tíma skrifaði Helgi Hjörvar útvarpsþulur grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi staðsetningu hússins og hvatti til þess að það yrði rifið vegna þess að það spillti fegurð miðborgarinnar! Síðari tíma viðbyggingar við Landsímahúsið (1966 og 1967) voru líka umdeilanlegar en hafa að sjálfsögðu skapað sér sess í hugum landsmanna, hver tími setur sín spor á umhverfið. Við opnum húsið að Austurvelli þannig að í framtíðinni verður svipað mannlíf við þessa hlið torgsins eins og er á öðrum hlutum þess í dag. Götuhæð Landsímahúss verður almenningsrými með veitingum og verslunum. Það er misskilningur (kannski framsetningu okkar að kenna) að við hækkum Landsímahúsið um eina hæð.

ŸNýbygging við Kirkjustræti: Í tillögu okkar er gert ráð fyrir nýbyggingu við Kirkjustræti. Byggingin tengist Landsímahúsinu en fær sjálfstætt yfirbragð. Húsið er 4 hæðir þar sem 4. hæðin er að hluta til inndregin. Þessi bygging er innan samþykkts deiliskipulags frá 9. áratug síðustu aldar. Úr því verið er að tala um „ofuráætlanir", þá er nýtingarhlutfall í tillögu okkar lægra en rúmast innan umrædds deiliskipulags.

Almennt má segja um tillögu okkar að við reynum að mæta ólíkum sjónarmiðum og tengja saman sundurlausa byggð og skapa heildarmynd. Við reynum líka að skapa umgjörð um blómlega starfsemi, starfsemi sem hæfir miðborg Reykjavíkur. Það höldum við að allir hafi sem markmið, hvar í sveit sem þeir skipa sér í afstöðu til tillögu okkar.

Höfundar greinarinnar eru:

Gunnar Örn Sigurðsson

Páll Gunnlaugsson

Valdimar Harðarson

Þorsteinn Helgason

hjá Ask arkitektum




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×