Körfubolti

Tíu íslensk stig og tíu stoðsendingar í fyrsta leik Svartþrastanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannson spilaði fyrsta leikinn í efstu deild bandaríska háskólaboltans í nótt líkt og Elvar Már Friðriksson.
Martin Hermannson spilaði fyrsta leikinn í efstu deild bandaríska háskólaboltans í nótt líkt og Elvar Már Friðriksson. vísir/daníel
Svartþrestirnir í LIU Brooklyn-háskólanum með íslensku landsliðsmennina Martin Hermannsson og Elvar Má Friðriksson innanborðs töpuðu fyrsta leik tímabilsins í nótt í nágrannaslag gegn St. Johns, 66-53.

Heimamenn í St. Johns voru sex stigum yfir í hálfleik, 32-26, en Svartþrestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel; skoruðu  sjö stig á móti einu og tóku forystuna í skamma stund, 33-32.

Þá tók Rysheed Jordan nokkur yfir leikinn fyrir St. Johns, en hann skoraði 13 af 15 stigum sínum í leiknum í seinni hálfleiknum og átti hvað stærstan þátt í sigri heimamanna.

Sir'Dominic Pointer, leikmaður á elsta ári hjá St. Johns, var LIU einnig nokkuð erfiður, en hann skoraði 18 stig, tók 8 fráköst og varði 6 skot.

Martin og Elvar voru báðir í byrjunarliðinu enda ætlast þjálfari liðsins, Jack Perri, til mikils af þeim við upphaf leiktíðar þar sem þeir eru búnir að spila reglulega í efstu deild á Íslandi.

Elvar Már spilaði sem leikstjórnandi og skoraði sex stig auk þess sem hann gaf fimm stoðsendingar. Hann hitti úr einu þriggja stiga skoti af fimm, tveimur af sjö skotum úr teignum og einu af tveimur vítaskotum.

Martin skoraði fjögur stig og gaf einnig fimm stoðsendingar. Hann hitti jafn illa og Elvar, en Martin nýtti hvorugt þriggja stiga skotið sitt og hitti aðeins úr einu af sex úr teignum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×