Innlent

Skattrannsóknarstjóri má kaupa gögn um Íslendinga í skattaskjólum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gefið skattrannsóknarstjóra heimild til að kaupa gögn um aflandsfélög Íslendinga í skattaskjólum, ef hann telji að gögnin nýtist embættinu. Þetta er þó háð því skilyrði að kaupverðið verði ekki hærra en tiltekið hlutfall þeirra fjármuna sem tekst að endurheimta með þessum hætti. Ráðuneytið er reiðubúið að tryggja þær fjárheimildir sem nauðsynlegar eru til að ráðast í öflun umræddra gagna, með eðlilegum fyrirvörum um samráð áður en til skuldbindinga er gengið.

Bjarni Benediktsson segist í viðtali við Stöð 2  ekki hafa upplýsingar um seljendur upplýsinganna né kaupverðið. Þau samskipti séu á hendi Skattrannsóknarstjóra. Það hafi þó komið fram að það sé greiðslan verði ekki innt að hendi fyrir upplýsingar nema þær leiði til aukinnar skattheimtu.



Bjarni hefur einnig skipað starfshóp til að kanna hvort setja eigi svokölluð amnesty-ákvæði í íslensk skattalög. Slík ákvæði hafi verið sett tímabundið í lög og samið um að menn sleppi við refsingu geri þeir sín mál upp, aftur í tímann. Það sé erfitt að meta árangurinn fyrirfram en það sé þess virði að kanna hvort ekki eigi að feta sömu slóð. Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og skattanefndar fagnar þessari ákvörðun. Hann segir að miðað við árangur nágrannaþjóðanna megi gera ráð fyrir að um fimm til fimmtán milljarðar geti skilað sér í svona átaki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×