Sport

Aðstaðan sprungin hjá KR: „Þetta er alltof lengi“

Bjarki Ármannsson skrifar
Halldór er sammála því að æfingar standi of lengi fram eftir.
Halldór er sammála því að æfingar standi of lengi fram eftir. Vísir/Valli
„Aðstaðan er löngu, löngu sprungin og aldrei neitt gert í því,“ segir Halldór G. Eyjólfsson, sem hefur umsjón með yngri flokkum körfuknattleiksdeildar KR. Samkvæmt æfingatöflu yngri flokka fyrir komandi vetur munu 14 ára drengir æfa til klukkan korter fyrir ellefu á þriðjudagskvöldum og 16 ára drengir til klukkan ellefu á fimmtudögum.

„Ég á sjálfur tvö börn sem eru búin að vera í þessu undanfarin ár og þetta er alltof lengi,“ segir Halldór, en lögbundinn útivistartími barna á aldrinum 13 til 16 ára er til klukkan tíu á kvöldin. Þó má bregða út af reglunum séu börn á leið heim frá viðurkenndri íþróttasamkomu.

Halldór segir að þörf sé á nýju íþróttahúsi hjá félaginu svo hægt sé að nýta daginn betur.

„Þetta er búið að vera svona í fjölda ára,“ segir Halldór. „Iðkendum hefur fjölgað mikið og við fáum bara enga tíma í KR-heimilinu.“

Hann segir þetta líka vandamál í öðrum æfingahópum sem sækja í íþróttahúsið, til að mynda í badminton og handbolta. ÍR hefur nýtt íþróttahús Seljaskóla undir körfuboltaiðkun og segir Halldór að það myndi ábyggilega hjálpa að semja um að fá afnot af íþróttahúsum Grandaskóla eða Hagaskóla seinni part dags.

„En Reykjavíkurborg hefur ekki viljað sleppa því húsi,“ segir Halldór. „Það væri strax skref í rétta átt en ég held að það yrði samt ekki nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×